139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:22]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það hefði verið betra að koma með málið fyrr inn í þingið. Það væri töluvert mikið betra ef við værum öll tilbúin með öll mál, alltaf þegar á þyrfti að halda. Ég held að við þurfum öll að gæta betur að forgangsröðun okkar, sama hvort það er í ráðuneytunum, í kostnaðarmati í fjármálaráðuneytinu, í nýrri lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins eða í forgangsröðun verkefna í þinginu. Með fullri virðingu, frú forseti, þá er það svo að iðulega mætti gæta betur að röð mála í þinginu og hvernig málin koma hér inn.

Ég vil samt sem áður árétta mikilvægi þessa tiltekna máls. Ég vænti þess að það verði ekki pólitískt bitbein og að þeir sem standa kannski frekar fyrir atvinnulífið í málflutningi sínum átti sig á því að hér munum við auka verðmætasköpun með því að styrkja þetta mikilvæga umhverfi allrar okkar matvælaframleiðslu og landbúnaðar.