139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[17:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek bara til máls til að taka undir mjög margt af því sem hv. formaður umhverfisnefndar, Mörður Árnason, sagði. Í fyrsta lagi tek ég nú undir þau sjónarmið sem hann orðaði snemma í ræðu sinni um þá þunglamalegu stjórnsýslu sem frumvarpið virtist gera ráð fyrir og er sammála honum um að það sé atriði sem við hljótum að taka til skoðunar í umhverfisnefnd þegar málið kemur þar til meðferðar. Um leið vildi ég taka undir orð hans varðandi málfarið og viðurkenni ég að hv. þingmaður hefur afar mikla reynslu og þekkingu á því sviði sem hefur einmitt nýst í störfum umhverfisnefndar að undanförnu þar sem verið er leggja til fjöldamargar breytingar á frumvörpum. Þar hefur þótt þörf á að lagfæra orðalag, þó ekki sé um efnisbreytingar að ræða, þannig að frumvarpstextinn sé á góðu og skiljanlegu íslensku máli. Vildi ég nota tækifærið til að þakka hv. formanni nefndarinnar fyrir það óeigingjarna starf sem hann hefur unnið á því sviði og hefur notið til þess stuðnings í nefndinni þó að ágreiningur kunni að vera um ýmis efnisleg atriði.