139. löggjafarþing — 40. fundur,  30. nóv. 2010.

stjórn vatnamála.

298. mál
[18:26]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir yfirgripsmikla og gagnlega umræðu sem tók held ég að ég megi segja aðallega á þremur eða fjórum atriðum, í fyrsta lagi stjórnsýslu og utanumhaldi, í öðru lagi þeim kostnaði sem fellur til á næstu tveimur árum og í þriðja lagi þeirri sýn að atvinnulífið eigi að bera þann kostnað inn í framtíðina. Ég leyfi mér að nefna líka síðast en ekki síst nokkuð ítarlega yfirferð hv. formanns umhverfisnefndar um málfar og stíl og er engu öðru við það að bæta en að taka því sem bjartri og jákvæðri hvatningu fyrir okkur öll sem sinnum löggjafarstörfum. Ég held að ég leyfi mér samt sem áður að segja að væntanlega hefðu allar þingnefndir gott af því að hafa hv. þm. Mörð Árnason sér til fulltingis í frumvarpsrýni og málfarsumbótum.

Þau atriði sem ég nefndi að öðru leyti og hér hafa komið til umræðu varða eins og ég segi fyrst og fremst stjórnsýsluna, kostnaðinn og svo væntanlega gjaldtöku. Ég vona að mér lánist að fara yfir þær athugasemdir sem helstar komu fram í umræðunni.

Að því er varðar stjórnsýslulegt fyrirkomulag sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson og fleiri þingmenn gátu um er eiginlega það að segja að hér hefði verið hægt að nálgast þetta verkefni með því móti að koma á fót nýju fyrirkomulagi utan um þessa stjórnsýslu alla en í stað þess var farin sú leið að nýta það stofnanakerfi sem fyrir er, þ.e. nýta krafta Umhverfisstofnunar, sveitarfélögin og heilbrigðiseftirlitin til að skapa það tengslanet sem óhjákvæmilega þarf að vera fyrir hendi til að hægt sé að draga upp þær mikilvægu áætlanir sem lagt er til með frumvarpinu.

Hér var rætt um að þessi stjórnsýsla væri þunglamaleg. Það er orðalagið sem einhverjir þingmenn notuðu í umræðunni, en ég vil leyfa mér að standa með þeirri sýn sem lögð er til í frumvarpinu vegna þess að hér er lagt til mjög ítarlegt og breitt samráð við meðferð vatnamála á öllum stigum. Ég held að sú nálgun og sú sýn sé skynsamleg og ég tel að hún sé til bóta en jafnframt að hv. umhverfisnefnd sé vel til þess bær að leggja á það mat eftir að hafa fengið umsagnir og yfirsýn bestu manna og kvenna í þeim efnum.

Mig langar til að nefna hér athugasemdir hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um vinnuna um vatnalagafrumvarpið og þá vinnu sem hann vísaði í, þá skýrslugerð sem þar var farið í. Með leyfi forseta vil ég vitna í greinargerð með frumvarpinu á bls. 19:

„Í iðnaðarráðuneyti er unnið að endurskoðun vatnalaga. Í undirbúningi er frumvarp þar sem gengið er út frá því að ákvæði um inntak vatnsréttinda landeigenda verði óbreytt frá því sem kveðið er á um í vatnalögum frá 1923 en stjórnsýsluákvæði laganna verði endurskoðuð, m.a. með hliðsjón af vatnatilskipun Evrópusambandsins.“

Hér er dregin upp sú staðreynd að um hliðsetta löggjöf er að ræða. Ég skildi það á máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar að honum þætti einföldun stjórnsýslunnar vera til bóta og er það nokkuð þvert á það sem aðrir hafa talað um, að stjórnsýslan væri flókin og þunglamaleg, þannig að ég ítreka enn og aftur að nefndin mun væntanlega taka það til gagnrýninnar skoðunar.

Varðandi orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um að draga saman seglin í þessu máli á næsta ári vil ég segja, og ég hef reyndar komið að því í andsvörum fyrr í dag, að það er einmitt það sem var gert þegar við skoðuðum innleiðinguna og hraðann á henni. Við gerðum það sem unnt var, miðað við bestu manna yfirsýn, til að fara rólega í þessa innleiðingu og að kostnaðurinn yrði til að byrja með í lágmarki. Ég heyri á hv. þingmönnum sem sitja í hv. umhverfisnefnd að þeir vilja skoða þetta enn frekar, og er það vel, að freista þess að ná enn þá meiri árangri í því að innleiða tilskipunina með eins litlum tilkostnaði ríkissjóðs og unnt er á fyrstu missirum.

Það er rétt sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talar um hér og ég þakka honum fyrir jákvæð orð um það að hér sé tekið tillit til stofnanakerfisins sem fyrir er. Ég vil geta þess í svörum við ræðu hans að haft var ítarlegt samráð við Veiðimálastofnun þannig að það er búið að rýna það mjög vel að því er varðar þau verkefni og þau hlutverk sem þar eru þegar fyrir hendi og þá skörun sem hugsanlega hlýst af verkefninu. Jafnframt vegna þess að hann viðraði hér áhyggjur af aðkomu Bændasamtakanna er það svo að ráðuneyti landbúnaðar var við borðið á öllum stigum þessarar frumvarpsgerðar. Ég vænti þess rétt eins og þingmaðurinn í ræðu sinni að Bændasamtökin verði meðal þeirra aðila sem koma að umsögn um frumvarpið þegar það fer til farsællar umfjöllunar og afgreiðslu umhverfisnefndar.