139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[18:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að það er afskaplega óvanalegt, svo að ekki sé meira sagt, að eiga orðastað við hæstv. umhverfisráðherra um skattafrumvarp sem fjármálaráðherra leggur fram, sérstaklega í ljósi þess — og ég verð að gera athugasemd við það og biðst afsökunar á því að ég er að nota þetta andsvar, en ég kem með spurningu mína rétt á eftir — að við erum nýbúin að veita afbrigði fyrir máli sem fjármálaráðherra lá óskaplega mikið á að koma á dagskrá. Þegar byrjað er að mæla fyrir málinu kemur í ljós að hæstv. fjármálaráðherra er staddur einhvers staðar allt annars staðar. Það má vel vera, og ég skal ekki gera lítið úr því, að hæstv. fjármálaráðherra hafi góða ástæðu fyrir fjarveru sinni en þetta er algerlega með ólíkindum.

Þetta er ekki stóra málið. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Mun hæstv. fjármálaráðherra koma hingað og taka umræðuna og mæla fyrir hinu síðara máli sem við veittum afbrigði fyrir, bandormi um skattamál, ég held í 58 greinum. Þrátt fyrir afar góðan vilja hæstv. umhverfisráðherra leyfi ég mér að efast um að hún geti svarað efnislega öllum þeim spurningum sem við höfum fram að færa og þá vil ég ítreka að ég er ekki að gera lítið úr hæfileikum hæstv. umhverfisráðherra. Hæstv. fjármálaráðherra ber pólitíska ábyrgð á þessu máli. Ég vil spyrja að þessu.

Varðandi þetta frumvarp vekur tímafresturinn á bótunum athygli, að bætur úr sjúkdómatryggingu sem keypt hefur verið fyrir 1. desember 2010 verði undanskildar skattlagningu. Nú verður þetta ekki orðið að lögum fyrir 1. desember 2010 og þá er um ákveðna afturvirkni að ræða. Getur hæstv. ráðherra upplýst mig um það af hverju ekki var miðað við gildistöku laganna?