139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[18:51]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að hér er um stjórnarfrumvarp að ræða og geri ekki lítið úr því. En ég vil samt sem áður ítreka athugasemd mína við þetta verklag. Ég vil spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort henni hefði ekki þótt eðlilegt að þegar við vorum að greiða fyrir þingstörfunum hér áðan og leitað var til okkar með þær umleitanir hvort hæstv. ráðherra hefði ekki fundist rétt að okkur hefði verið greint frá því að hæstv. fjármálaráðherra hygðist ekki vera hér. Ég get upplýst að það kom aldrei til tals að hæstv. fjármálaráðherra yrði ekki hér til að mæla fyrir þessum frumvörpum sem bráðlá á.

Ég vil ítreka að ég er ekki að gera lítið úr hæfileikum hæstv. umhverfisráðherra til að fjalla um þessi mál en þau eru sannarlega ekki á hennar málasviði dagsdaglega. Þó að þetta mál sé ekki mikið umfangs þá er næsta mál á dagskrá stórt mál. Það er mjög flókið skattamál og maður hefði haldið að hæstv. fjármálaráðherra yrði hér til að taka umræðu um það. Ég vil beina því til hæstv. forseta hvort ekki væri rétt að taka kvöldverðarhlé og athuga hvort ekki væri hægt að koma hæstv. fjármálaráðherra í hús til að ræða þetta mál þegar kvöldmatarhléi lýkur.