139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[18:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir að taka á sig sök í þessu máli en ég verð að segja að það er alveg rétt að þingmaðurinn greindi ekki frá þessu með skilmerkilegum hætti, hann greindi bara alls ekkert frá þessu. Það var aldrei á það minnst að hæstv. fjármálaráðherra yrði fjarverandi. Það var þvert á móti samið um það að koma á dagskrá málum sem fjármálaráðherra legði mikla áherslu á að kæmu á dagskrá og það er hreint með ólíkindum að þetta hafi ekki verið upplýst í þeim viðræðum sem við áttum og ég geri verulegar athugasemdir við það.

Ég vil líka spyrja hvort sú hugmynd hafi verið skoðuð að taka kvöldmatarhlé á meðan hæstv. fjármálaráðherra gerir ráðstafanir til að breyta sinni dagskrá og koma hingað í þessa umræðu.