139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[19:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þó að hæstv. ríkisstjórn sé búin að glata flestum hæfileikum sínum þá er hún ekki búin að glata hæfileikunum að koma manni á óvart. Þessi vinnubrögð eru með eindæmum. Það á að ræða stórt mál sem lýtur að tekjuöflun ríkissjóðs, stórt og flókið mál sem í eðli sínu er tæknilegs eðlis og þess vegna verður að gera eðlilega og sanngjarnan kröfu um að hæstv. ráðherra, sem undirbúið hefur málið og sett sig inn í það, sé viðstaddur til að taka þátt í umræðum. Það gengur ekki að halda umræðunni lengur áfram.

Hæstv. forseti minnti á að til stæði að gera hlé á eftir. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að kallaður verði saman fundur þingflokksformanna þar sem farið verður yfir málið. Það er augljóst að málið sem á að ræða á eftir, stóra tekjuöflunarfrumvarpið, verður ekki rætt í kvöld að hæstv. fjármálaráðherra fjarstöddum. Það sjá allir sanngjarnir menn.