139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Lögbundna kerfið okkar er þannig að í mörgum tilfellum hafa atvinnurekendur í kjarasamningum tekið að sér að greiða fyrstu tvo til fjóra mánuðina vegna veikinda launþega. Það er það fyrsta. Það iðgjald, ef svo má segja, er skattfrjálst hjá atvinnurekandanum af því að hann dregur þann kostnað frá skatti. Allar útgreiðslur launa eru dregnar frá skatti í kostnað og það er skattskylt hjá þeim sem tekur á móti. Þetta er rökrétt.

Að loknum þessum tveim til fjórum mánuðum taka sjúkrasjóðir stéttarfélaga við og þeir spanna nánast landið og miðin. Ég veit ekki hversu stórt hlutfall af öllum launþegum eru í þeim en allir launþegar eiga að vera í sjúkrasjóði samkvæmt lögum. Sjúkrasjóðirnir taka við og borga — nú þekki ég ekki nákvæmlega nýjustu tölurnar — svona frá 60% upp í 80% og jafnvel 90% af launum í fjóra til sex eða tólf mánuði, það er mjög mismunandi og er kannski gallinn við kerfið.

Iðgjaldið í sjúkrasjóð er líka frádráttarbært frá skatti hjá fyrirtækjunum og skattskylt þegar það kemur til launþega. Það er rökrétt.

Tryggingar sem við ræðum hér eru þess eðlis að maðurinn tekur sjálfur ákvörðun um að kaupa þær og tryggja sig, hann borgar það af peningum sem hann er búinn að borga skatt af. Hann tekur ákvörðun um þetta sjálfur. Þetta geta verið sjálfstæðir atvinnurekendur sem ekki eru í hinu kerfinu eða verktakar. Þá er ekki eðlilegt, það er bara fráleitt, að hann borgi skatta af peningum sem hann tók sjálfur ákvörðun um að tryggja sig með og gat ekki dregið frá skatti. Það er búið að skattleggja það fé.