139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Tilefni þess að ég er kominn upp í andsvar er að hv. þingmaður sagði að menn væru með mjög lágar bætur í sjúkratryggingum. Það á við um almannatryggingar. Þeir sem fá eingöngu bætur frá almannatryggingum höfðu þá væntanlega engar tekjur áður. Ef þeir hefðu haft tekjur áður hefðu þeir verið skyldugir til að borga í sjúkrasjóð. Þeir mundu því njóta trygginga þaðan. Þeir sem fá eingöngu bætur frá almannatryggingum höfðu engar tekjur áður og hafa því allt í einu tekjur með bótunum þannig að þetta er ekki slæmt kerfi.

Gallinn við kerfið er að yfir því hvílir ákveðin kyrrþey, enginn talar um það, það ríkir þögn um það. Það vantar líka alla samræmingu til að tryggja að engar gloppur séu í kerfinu. Það er heilmikið um gloppur í því. Reglugerðirnar eru mjög mismunandi og engin lög eru um sjúkrasjóði, það er bara skylda að borga í sjúkrasjóð. Svo væntanlega gera þeir eitthvað sem heitir „sjúkra“-eitthvað.

Það vantar lög um sjúkrasjóði og það væri virkileg ástæða fyrir félags- og tryggingamálanefnd að taka þennan málaflokk allan til endurskoðunar og semja um hann ágæt frumvörp.