139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttir svörin. Varðandi fyrra atriðið, þ.e. fjölskyldu- og styrktarsjóðina, þá eru það sjóðir sem stofnaðir voru í kjölfar lagabreytinga sem urðu á Fæðingarorlofssjóði, að mig minnir 2002 en það er þó ekki víst að ég fari rétt með það ártal, látum það liggja á milli hluta. Styrkir sem greiddir eru út úr þeim sjóðum, til að mynda tekjutengdir styrkir, hafa í fæstum tilfellum tengsl við framlagðan kostnað eða þess háttar. Þeir eru bara skattlagðir eins og um tekjur væri að ræða. Mér finnst því í rauninni að ef við ætlum að hafa skattfrelsi á einni tegund af tryggingu sem fólk kaupir sér með þessum hætti eigi það að eiga við alls staðar.

Ég er sammála hv. þingmanni að auðvitað eigum við að stefna fyrst og fremst að því að styrkja almannatryggingakerfið þannig að fólk þurfi ekki að leita annað eftir tryggingum sem mega teljast eðlilegar þeim til framfærslu og viðurværis. En ég hef ekki sannfæringu fyrir því að með því að bæta við atriðum eins og skattfrelsi í öðrum tryggingum en tryggingabótum séum við að sigla í þá átt.