139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að munnhöggvast við hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um skilgreiningar á jafnaðarmönnum. Það að vera vænd hér um að stuðla að því að grafa undan almannatryggingakerfinu finnst mér hálfeinkennilegt í ljósi þess að það kerfi er ekki þannig að það tryggi fólki framfærslu með viðunandi hætti. Þess vegna hafa yfir 40 þúsund manns valið að kaupa sér tryggingar á einkamarkaði.

Eins og ég fór yfir í ræðu minni og hv. þingmaður hefði heyrt hefði hún hlustað, vil ég sem jafnaðarmaður hafa hér öflugt almannatryggingakerfi þar sem fólk úr samtryggingarkerfinu nýtur framfærslu ef það verður fyrir skakkaföllum. En við búum langt í frá við þær aðstæður í dag, langt í frá. Þess vegna segi ég að með því að vera með lög um og sérstaklega að innleiða skattlagningu á þessa bótaflokka erum við að skattleggja sérstaklega þá sem búa ekki við atvinnuöryggi. Þar af leiðandi styð ég, á meðan við ekki höfum almannatryggingakerfi sem tryggir öllum framfærslu þegar þeir eiga við sjúkdóma að stríða, skattfrelsi sjúkdómatrygginga á einkamarkaði.