139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fagna framlagningu þessa frumvarps vegna þess að það kemur af stað umræðu um þessi mál öllsömul. Mér finnst það mjög brýnt. Ég tel að í þeim tryggingakerfum þar sem aðildin er frjáls og iðgjaldið skattað, þar sem ekki er hægt að draga frá skatti, eigi bæturnar að vera skattfrjálsar. Það er búið að borga skatt af því fé og menn tóku ákvörðun um það sjálfir. Þar sem aðildin er frjáls og iðgjaldið er frádráttarbært frá skatti á að skatta bæturnar. Það er afskaplega einfalt. Ef hins vegar er um skyldugreiðslu að ræða getur verið möguleiki í báðar áttir, að hafa skattskylt eða skattfrjáls iðgjaldið og bæturnar, vegna þess að þá á líta á iðgjaldið sem skatt, það sé skattur sem tekinn er af fólki og þess vegna megi skattleggja aftur ef það er skylda og almennt. Það gefur tækifæri til þess að ræða almennt um þetta kerfi.

Eins og komið hefur fram eru ákveðnar gloppur í kerfinu. Verktakar eru t.d. ákveðin gloppa í kerfinu. Þekkt er að eftir því sem við skattleggjum meira víkur skattstofninn undan. Hann gerir það á ýmsan hátt. Hann leggst af, þ.e. viðkomandi starfsemi leggst af, hún flyst til útlanda. Starfsemin fer þá fram annars staðar, eða hún fer undir yfirborðið að ýmsu leyti, með því að vera verktaki eða bara sem hrein og klár skattsvik. Hvort tveggja slæmt. Þess vegna vil ég vara hæstv. ríkisstjórn við því að leggja á of mikla skatta því að skattstofninn kiknar undan sköttunum, eins og við sjáum nú í stórum stíl, og gefur ríkissjóði minni og minni tekjur þótt skattarnir séu hækkaðir, það er það sem fólk ruglar saman. Meira að segja hæstv. fjármálaráðherra ruglar því saman, hann segir að skattar séu að lækka vegna þess að skatttekjurnar lækka. Það er ekki rétt. Skattar geta hækkað og skatttekjurnar lækkað. Það sýnir sig núna að það getur gerst.

Það undarlega sem getur gerst — menn töluðu um að bæturnar væru fyrir kostnaði. Ég man ekki eftir hvað fer ekki í kostnað af tekjum mínum. Jú, það sem ég spara, en þá mánuði sem ég get ekki sparað fara allar tekjur mínar í annaðhvort skatta eða kostnað þannig að það eru engin rök að eitthvað sé skattfrjálst af því það fer í kostnað.

Hins vegar eru það rök ef menn hafa tekjur út úr tryggingunum, eins og t.d. þeim tryggingum sem við ræðum, þar væri miklu nær að skoða hvort ekki eigi að gera iðgjaldið skattfrjálst sem menn geti dregið frá skatti. Það væri miklu nær að skoða þann enda.

Mér finnst að almenna reglan eigi að vera sú að ef iðgjaldið er skattað eigi bæturnar að vera skattfrjálsar og ef iðgjaldið er frádráttarbært eigi bæturnar að vera skattaðar. Það er grundvallaratriði sem við ættum að hafa og ég hugsa að sé tiltölulega einfalt að setja það inn í lögin að hafa þessa almennu reglu.

Við getum skoðað brunatryggingu í þessu sambandi. Ef hús brennur hjá fólki og það vill ekki endurreisa húsið heldur selur lóðina og stingur bótunum í vasann, eru það þá ekki tekjur? Hvernig líta menn á það? Er maðurinn ekki allt í einu kominn með helling af peningum í vasann? Dettur ekki allt í einu einhverjum í hug að skattleggja það? Hvernig er með bílatryggingar, kaskótryggingu, eða bara almennar bílatryggingar, eins og talað var um? Bíllinn minn er keyrður í klessu og ég fæ bætur til að greiða tjónið. Bíddu við, er það ekki skattskylt með nákvæmlega sama hætti og sjúkratrygging þar sem ég tek tryggingu til að bæta mér tjón ef ég missi vinnuna vegna sjúkdóma? Ég sé ekki stóran mun á því.

Við verðum því að stöðva tilhneiginguna til að skattleggja allt vegna þess að bráðum fara menn að skattleggja bætur tryggingafélaga, alla vega kaskóbæturnar og eins brunatryggingar sem ekki eru notaðar til að endurreisa hús, það mætti skattleggja það o.s.frv.

Ég tel að ef menn ekki geta dregið iðgjaldið frá skatti eigi bæturnar að vera skattfrjálsar. Það er mjög einfalt.

Frumvarpið fer nú til efnahags- og skattanefndar og þar mun ég leggja til þá breytingartillögu sem ég lagði til hér. Þá mun ég gera almenna breytingartillögu við lögin og síðan geta menn ákveðið hvort iðgjöld í sjúkratryggingar séu frádráttarbær frá skatti eða ekki. Ef þau eru frádráttarbær frá skatti 1. desember er eðlilegt að skattleggja bæturnar af því að þær eru tekjur.

Ég vil gjarnan að hv. félags- og tryggingamálanefnd taki að sér að kortleggja allan vandann varðandi tryggingakerfi þjóðarinnar. Þegar menn verða veikir í vinnu, veikir utan vinnu, hver bætir það og hvernig? Kerfið er mjög ósamfellt. Sjúkrasjóðirnir starfa án laga, það veit enginn hvað þeir eiga að gera. Það er ekkert lögformlegt eftirlit — þó að það hafi reyndar verið bætt hjá stéttarfélögunum — og það eru engin ákvæði um hvað á að greiða. Ég vil gjarnan að sá hluti sé settur í form af því ef menn veikjast og eru ekki orðnir öryrkjar. Síðan taki lífeyrissjóðirnir við með örorkugreiðslur sínar eftir að því er lokið. Ég skora á hv. félags- og tryggingamálanefnd sem ég á líka sæti í, að hún taki sér tak og semji um það lagabálk. Það er ekki einfalt.

Frumvarpið gefur tilefni til þess að skoða allt hið frjálsa tryggingakerfi og ég legg að sjálfsögðu til að 2. gr. verði felld burt.