139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

tekjuskattur.

300. mál
[20:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hlutatryggingar, þ.e. tryggingar sem tryggja hluti, eru ýmist þannig að menn fá nývirði eða menn fá metið tjón. Varðandi heimilistryggingar meta menn yfirleitt ekki hversu gömul pannan var sem brann eða diskasettið, heldur fá menn bara nývirði. Þá má segja að menn hafi hagnast af því hluturinn var orðinn gamall, kominn til ára sinna, ef hann var ekki orðinn of gamall og farinn að verða fornminjar, en það er litið fram hjá því. Það er því ýmislegt miðað við hlutatryggingarnar.

Varðandi sjúkrasjóðina hins vegar og ýmsar tryggingar sem stéttarfélögin veita — það sýnir einmitt vandamálið. Sum stéttarfélög veita styrk vegna kostnaðar við jarðarfarir. Hann er borgaður með félagsgjöldum félaganna og þau eru ekki frádráttarbær frá skatti. Þær bætur ættu því ekki að vera skattskyldar. Hins vegar er iðgjaldið í sjúkrasjóðina greitt af atvinnurekendum og fer þar inn sem kostnaður hjá atvinnurekendum þannig að þeir borga ekki skatt af því. Iðgjald í sjúkrasjóðina er því skattfrjálst, reyndar með töluvert lægri prósentu vegna þess að fyrirtækin borga lægri skatt en einstaklingar, og í samræmi við það eru bæturnar úr sjúkrasjóðunum skattskyldar. Það er ákveðið samræmi þar í. En ég mun leggja til í hv. nefnd sem fær málið til umfjöllunar að það verði skoðað allt saman og reynt að koma einhverju systemi í galskapið þannig að það sé í samræmi hvað við annað.