139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[20:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forstjóri … forseti. Ég held að ég hafi ávarpað forseta sem fundarstjóra í gær þannig að það er greinilega einhver leitandi í mér í þessu efni.

Mig grunar að nú eigi að hætta þingstörfum í dag og hef fengið þau tíðindi úr öðrum stöðum en forsetastóli. Ég vil spyrja forseta hvað valdi því að tvö frumvörp — sem pólitískur samhugur er um, sem hafa beðið hér í allan dag, sem hefðu nauðsynlega þurft að komast í 2. umr. og út úr henni til nefndar aftur, sem nefndin hefur gert ráð fyrir að taka til umfjöllunar milli 2. og 3. umr. til þess að geta afgreitt frumvarpið sem allra fyrst til að greiða fyrir þingstörfum, frumvörp sem tengjast lögum sem taka gildi 1. janúar og eru nú lent í hættu — eru ekki á dagskrá.

Mig langar til að spyrja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins hér í salnum hvort þau tíðindi séu rétt sem ég hef heyrt að það sé vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagst sérstaklega gegn því.