139. löggjafarþing — 41. fundur,  30. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[21:02]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég kann því illa þegar mér er legið á hálsi að skrökva í ræðustól og ég frábið mér slíkar sakir.

Ég hef ekki svör við því af hverju þessi mál eru ekki á dagskrá. Það var ekki mín ákvörðun að taka þau af dagskrá heldur var gert samkomulag á milli þingflokksformanna um hvaða mál skyldu njóta forgangs og hvaða mál skyldu ekki njóta forgangs. Það er við þingflokksformenn stjórnarflokkanna að sakast. Þeir lögðu ekki áherslu á að þessi mál yrðu kláruð. (MÁ: Það er rangt. Bara skrökvar í ræðustól.) Þannig liggur í því.

Hér hefur mikið verið rætt um að jólaandinn og samningsviljinn séu til staðar. Ég held að hv. þingmenn ættu einfaldlega að gera það, standa við gerða samninga. Það ætla ég svo sannarlega að gera og þess vegna lýkur dagskránni núna eins og um var samið.