139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

kostnaður við niðurfærslu skulda.

[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rangt hjá hv. þingmanni að ekkert sé nýtt í þessu nema að því er varðar vaxtabæturnar og vaxtaniðurgreiðslurnar. Þessi 110%-leið hefur ekki verið í boði hjá Íbúðalánasjóði eða lífeyrissjóðunum. Bankarnir hafa framkvæmt hana mjög misjafnlega og í heild hafa einungis verið afskrifaðir um 22 milljarðar kr. til einstaklinga í öllum þessum bönkum á þessu tímabili. Nú er komin samræmd framkvæmd á þessu öllu, það er búið að víkka út sérstaka greiðsluaðlögun þannig að hún nær til fleiri og það er búið að gera þessa 110%-leið sanngjarna og eðlilega þannig að við greiðum ekki niður margar milljónir til stóreignafólks sem á margar eignir, t.d. aðra íbúðareign en þá sem er að fullu veðsett eða sumarbústaði, fólks sem er kannski með margar milljónir á mánuði í tekjur. Við erum að reyna að fara leið réttlætis og sanngirni í þessu máli og ég held að það hafi tekist vel.

Vaxtaniðurgreiðslan er virkileg nýjung í þessu öllu saman og hún mun ná til allt að 60 þús. heimila. Þar er um verulega niðurgreiðslu að ræða, tímabundna í tvö ár. Ef við erum að tala um 19 milljarða kr. hvort árið um sig erum við að tala um það að a.m.k. þriðjungur af því sem fer í vexti og verðbætur sé greiddur niður hjá fólki. Þarna er um verulegar aðgerðir að ræða til að bæta skuldavanda heimilanna.

Varðandi það hver borgar þessa vaxtaniðurgreiðslu er það algjörlega kvitt og klárt í þessu samkomulagi, það segir berum orðum að það eigi að leita leiða til að lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki (Forseti hringir.) fjármagni þessi útgjöld. Það liggur alveg fyrir. Hvernig það verður útfært liggur ekki enn fyrir en ég hef margítrekað í samtölum okkar við þessa aðila að það verði gert gegnum skattkerfið. (Forseti hringir.) Ef það finnast einhverjar aðrar leiðir til þess að þeir geti mætt þessum útgjöldum verður það auðvitað skoðað, en það er alveg klárt að það eru fjármálastofnanirnar og lífeyrissjóðirnir sem eiga að borga þetta.