139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

kostnaður við niðurfærslu skulda.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Varðandi Icesave veit hv. þingmaður nákvæmlega eins vel og ég hvar þeir samningar standa. Síðast þegar við ræddum (Gripið fram í.) um það mál var hv. þingmaður ásamt öðrum formönnum annarra flokka á fundi með mér til að ræða það mál. Við vissum vel að það stóðu þar ákveðin atriði út af sem menn eru að reyna að ná samkomulagi um þessa stundina. Hv. þingmaður veit mætavel hver staðan er í því máli.

Varðandi þær girðingar sem settar hafa verið um 110%-leiðina held ég að það hljóti nú að vera sanngjarnt að eignastaða hjá fólki sé skoðuð og gerð eignakönnun þannig að við séum ekki að láta þessar afskriftir ganga til stóreignafólks og fólks með miklar tekjur. (Gripið fram í: Sama raðhúsið.) Þess vegna er líka verið að setja þetta viðmið í greiðslubyrði sem ég held (Gripið fram í.) að sé sanngjarnt. Það er ekki sanngjarnt að fella niður skuldir hjá stóreignafólki sem á (Gripið fram í.) mjög margar eignir og hefur háar tekjur (Forseti hringir.) en fella þær svo ekki (Gripið fram í.) niður hjá fólki sem t.d. hefur verið að nýta séreignarsparnaðinn sinn eða hefur staðið að hóflegri fjárfestingu en aðrir sem fá niðurfellt. Við hljótum að setja skilyrði (Forseti hringir.) og ramma í kringum það þannig að stóreignafólk og fólk með gífurlegar tekjur fái ekki þessa niðurfellingu.