139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

Icesave.

[15:19]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem helst kannski stendur upp úr fréttum helgarinnar varðandi lausnir ríkisstjórnarinnar á skuldavanda heimilanna er að þeir sem helst fagna eru lífeyrissjóðirnir en ekki almenningur í landinu. En ég ætlaði nú ekki að fara að ræða það mál, heldur Icesave. Þeir sem fylgdust með fjölmiðlum nú um helgina komust ekki hjá því að sjá og lesa fréttir af því að svo virðist vera sem fyrir liggi samkomulag um Icesave-málið eða svo gott sem.

Hér hefur verið upplýst og margoft komið fram að fram fer kynning á þeim samningsdrögum um allan bæ án þess að samkomulagið hafi verið lagt fyrir þingið, þingnefndir eða þingflokka, a.m.k. ekki þann þingflokk sem ég sit í. Þetta vinnulag er algjört hneyksli af hálfu hæstv. ríkisstjórnar sem hæstv. forseti þingsins á auðvitað að taka á nú þegar. Það er eins og ríkisstjórnin sé að þjófstarta kosningabaráttu um nýjan Icesave-samning, enda ekki seinna vænna. Á morgun er 7. desember og þá á hæstv. ríkisstjórn að skila svarbréfi sínu til Eftirlitsstofnunar EFTA. Þá hlýt ég að spyrja: Liggja samningsdrögin fyrir eða verður svarbréf við áminningarbréfinu sent til Eftirlitsstofnunarinnar? Það eru bara þessir tveir kostir í boði, hefði ég haldið.

Gefum okkur að gert verði nýtt samkomulag. Þá langar mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann er þeirrar skoðunar að Icesave-samningurinn skuli ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ástæðan fyrir því að ég spyr er að forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, sem er nú töluverður örlagavaldur í þessu máli hefur lýst því yfir (Forseti hringir.) í erlendum fjölmiðlum að nýr Icesave-samningur skuli ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann er sammála (Forseti hringir.) forseta lýðveldisins og til samkomulags um það að þannig skuli haldið á málum náist samkomulag.