139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

Icesave.

[15:24]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. forsætisráðherra að ætla að reyna að klína stöðunni í Icesave-málinu á formenn stjórnarandstöðuflokkanna. Engir samningar hafa verið lagðir fram í okkar þingflokki og að því er ég hygg ekki heldur í öðrum þingflokkum stjórnarandstöðuflokkanna, a.m.k. ekki samningarnir sem verið er að ræða um. Það er nú bara þannig, og það ætti hæstv. forsætisráðherra manna best að þekkja, að það kann ekki góðri lukku að stýra að taka afstöðu til samninga áður en maður hefur lesið þá (Gripið fram í: Heyr, heyr.) eða getað kynnt sér þá. Það er auðvitað á forræði ríkisstjórnarinnar að leggja samningana fram og kynna þá.

Við hljótum að óska eftir skýrum svörum um það hvort andmæli við áminningu ESA verða lögð fram eða hvort samningsdrögin verða lögð fram. 7. desember er á morgun og þá rennur fresturinn út. Það er ekki seinna vænna (Forseti hringir.) að leggja drögin fram.

Ég held að allir landsmenn og öll heimsbyggðin hafi skilið (Forseti hringir.) forsetann rétt að hann var þeirrar skoðunar í viðtölum sínum við erlenda fjölmiðla að nýjan Icesave-samning ætti að leggja aftur fyrir þjóðina. Og (Forseti hringir.) ég hygg svona í ljósi reynslunnar að hæstv. forsætisráðherra hljóti að íhuga þann möguleika verulega (Forseti hringir.) að haga málum þannig.