139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

orð utanríkisráðherra Hollands um Icesave og ESB.

[15:33]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að leita að neinu í fjölmiðlum. Ég skal bara afhenda henni hér þær fregnir af þessu máli sem voru á sínum tíma í fjölmiðlum, m.a. vegna fyrirspurna hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Hv. þingmaður verður að vera klár á fyrirspurnum sem hún ber til mín, hún spurði mig einungis um það hvort þetta samtal hefði átt sér stað. Hún spurði mig ekki í fyrri fyrirspurn sinni um það hvað hefði þar farið fram. En vegna þess að hv. þingmaður gekk eftir því hér í seinni ræðu sinni er rétt að það komi alveg skýrt fram að engar hótanir komu fram af hálfu hollenska utanríkisráðherrans og áður hafði hann talað í hvassari tóni en í þessu símtali. Hins vegar sagði hann það þá (Gripið fram í.) og síðar, eins og margsinnis kom fram og kom fram í hollenska þinginu, að eins og hollensk stjórnvöld orðuðu það töldu þau að íslensk stjórnvöld yrðu að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum sínum áður en tilteknir hlutir varðandi (Forseti hringir.) Evrópusambandið gengju fram. En reynslan hefur sýnt að við höfðum (Forseti hringir.) á réttu að standa en ekki þeir, þ.e. allt hefur gengið (Forseti hringir.) samkvæmt áætlun varðandi Evrópusambandið og Ísland án þess að Icesave sé frágengið.