139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

úthlutun sæta á stjórnlagaþing.

[15:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Um þarsíðustu helgi fóru fram kosningar til stjórnlagaþings og voru sett sérlög um kosningar til þess. Í 14. gr. laganna í 2. tölulið er sætishlutur útskýrður, með leyfi forseta:

„Ákvarða skal sætishlut listans með þeim hætti að deila tölu gildra atkvæða með 26.“ — Talan 26 er fundin út frá því að 25 sæti eru í boði plús 1 vegna reiknireglna. Gild atkvæði voru 82.500, kjörsókn um 37%, afar dræm, þannig að sætishlutur er 3.167 samkvæmt þessari reiknireglu.

Um 14. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Í ákvæðinu er lagt til að í persónukjöri til stjórnlagaþings verði beitt svonefndri forgangsröðunaraðferð. […] Ferli þess að raða frambjóðendum til stjórnlagaþings í sæti samkvæmt úrslitum persónukjörsins er lýst í átta töluliðum.“ — Og nú ætla ég að lesa það sem segir um 2. tölulið, með leyfi forseta:

„Í 2. tölulið er svonefndur sætishlutur skilgreindur. Sætishlutur segir til um það atkvæðamagn sem frambjóðandi þarf að ná til að ná kjöri. Við útreikning á sætishlut er beitt svonefndri Droops-aðferð […] Hugsunin að baki sætishlut Droops er sú að aldrei geti fleiri frambjóðendur komist í senn yfir þennan þröskuld en svarar til tölu þingsæta.“

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Nú komust einungis ellefu frambjóðendur yfir þennan sætishluta, upp á 3.167. Hefur hæstv. forsætisráðherra gert sér grein fyrir því að gefin hafa verið út kjörbréf til 14 aðila sem ekki náðu þessum (Forseti hringir.) sætishlut samkvæmt lögunum?