139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

úthlutun sæta á stjórnlagaþing.

[15:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það vill þannig til að landskjörstjórn kom á fund allsherjarnefndar í morgun að beiðni þeirrar sem hér stendur til að fara yfir þessi mál. Ekki vildi betur til en svo að landskjörstjórn fékk allt of lítinn tíma og var að lokum vísað út frá allsherjarnefnd vegna þess að aðrir gesti áttu að koma fyrir nefndina. Sem varð síðan ekki.

Þetta mál liggur hér í mikilli óvissu vegna þess að fulltrúar landskjörstjórnar tóku undir þennan málflutning, að um þennan sætishlut væri að ræða. Málið er því kannski ekki lengur hjá landskjörstjórn vegna þess að landskjörstjórn virðist hafa sést yfir þetta atriði. Málið liggur því e.t.v. hjá Hæstarétti því að þegar landskjörstjórn hefur skilað kjörbréfum er um eina leið að ræða til að fá mál á hreint, það er að kæra málið til Hæstaréttar.