139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[15:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég er ekki komin hingað upp, eftir þessa umræðu í óundirbúnum fyrirspurnum, til að mæla með því við forseta þingsins að 7. desember verði eftir helgi. Engu að síður er það þannig að fram komu upplýsingar af hálfu forsætisráðherra sem ég tek mjög alvarlega, verandi í fjárlaganefnd þingsins. Það er greinilegt að drög vegna Icesave eru í gangi, jafnvel vergangi, þau rata ekki hingað inn í þingið. Við spurðum að því í morgun í hv. fjárlaganefnd þingsins, við í minni hlutanum, hvaða mál við mættum búast við að fá inn í þingið á næstunni, ekki síst í tengslum við fjárlögin.

Nefnd voru atriði í tengslum við skuldastöðu heimilanna og atriði tengd Íbúðalánasjóði, atriði sem við þekkjum. En Icesave var þar ekki dregið fram. Ég vil hvetja forseta eindregið til þess að beita sér fyrir því að þessi drög verði kynnt þessum nefndum, utanríkismálanefnd þingsins og fjárlaganefnd, hið allra fyrsta.

Ég vil minna forseta þingsins á að forseti er ekki bara hér til að vera á skeiðklukkunni, hún er hér fyrir alla þingmenn. Ég hvet hana til að vera fyrirliði þess liðs sem greiddi atkvæði (Forseti hringir.) með svonefndi Atla-skýrslu þar sem atkvæði féllu 63:0. Þetta snýst um samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.