139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

nýr Icesave-samningur.

[15:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það vakti áhuga minn í umræðunni hér áðan um Icesave — og varð endanlega til þess að ég ákvað að koma hingað upp og ræða við forseta um fundarstjórn, störf þingsins og virðingu þingsins — að hv. formaður utanríkismálanefndar upplýsti að til stæði að kalla saman utanríkismálanefnd og jafnvel fjárlaganefnd til að kynna fyrir þeim þau drög að samkomulagi sem lægi fyrir við Breta og Hollendinga um Icesave. Samkvæmt fréttum sennilega í allt að hálfan mánuð hefur hæstv. fjármálaráðherra í það minnsta fyrir hönd ríkisstjórnarinnar verið að kynna það samkomulag samtökum atvinnurekenda og öðrum slíkum stofnunum í samfélaginu. En samkvæmt því sem hv. formaður utanríkismálanefndar og hæstv. forsætisráðherra segja, ef ég skil það rétt, stendur til að kynna það fyrir þinginu einhvern tíma næstu daga. (Forseti hringir.) Hvernig eigum við að geta greint hvort fyrir liggur eitthvert samkomulag (Forseti hringir.) þegar þetta er allt í þessum véfréttastíl? Og hvar er (Forseti hringir.) virðing Alþingis, forseti? (Gripið fram í.)