139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki hugsun neinna að þarna sé eitthvert gólf sem sé beinlínis til þess ætlað að halda litlum verkefnum úti, a.m.k. væri ég persónulega alls ekki hlynntur slíku. Ég hef einmitt lagt áherslu á hið gagnstæða, að þetta eigi sérstaklega að vera stuðningur við minni aðila sem eru að leggja af stað og eru veikburða, hverjum hann er enn þá dýrmætari en jafnvel stóru og sterku aðilunum. Ein leið til að nálgast þetta væri einfaldlega sú að það væru bara náttúruleg mörk á því hvað menn stæðu í að sækja um lítil verkefni og menn væru ekkert að hafa af því áhyggjur. Ég tel það alveg koma til greina. Það er sjálfsagt mál að skoða það eða að hafa þennan þröskuld enn lægri ef menn telja það eftir sem áður, til að ekki sé verið að sækja um einhverja hundraðkalla, að þetta væru þá 2, 3 milljónir eða 1 milljón eða hvað það nú væri. En þá má líka spyrja: Er ekki eins gott að sleppa því?

Það sem hér er fyrst og fremst verið að leggja til er á hinum endanum. Það er verið að tvöfalda fjárhæðarmörkin upp á við í öllum helstu liðum stuðningsins. Það er umtalsvert framlag sem getur leitt til þess, og mér liggur við að segja vonandi leiðir til þess, að útgjöld ríkisins (Forseti hringir.) vaxi umtalsvert en þá er það vegna þess að starfsemin er að aukast.