139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:30]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu þessa frumvarps. Hér eru fjölmörg jákvæð skref stigin, sérstaklega í samvinnu og samstarfi við fulltrúa atvinnulífsins, og verið er að rýmka skattalega meðferð á eftirgjöf skulda til að flýta fyrir endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja og það er vel.

Ég er með eina afmarkaða spurningu hvað varðar nýsköpunarhluta frumvarpsins. Það er vissulega jákvætt að stærri skref verði stigin til þess að auka á skattalegar ívilnanir til fyrirtækjanna sjálfra en það eru að sjálfsögðu viss vonbrigði að nú eigi að hverfa frá hlutabréfaafslætti frumvarpsins sem við samþykktum í fyrra vegna ESA- og EES-reglna. Spurning mín til hæstv. ráðherra tengist þessu: Væri leið fram hjá EES-samningnum að rýmka reglurnar og láta þá skattafslátt til hlutabréfakaupa ekki eingöngu ná til nýsköpunarfyrirtækja heldur til fyrirtækja almennt?