139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, trúlega væri það a.m.k. leið til að taka á einum afmörkuðum gagnrýnisþætti. En þá verðum við auðvitað að svara þeirri pólitísku spurningu: Viljum við fara aftur inn á þá braut að taka upp almenna afslætti til handa þeim sem kaupa hlutabréf? Maður getur velt því fyrir sér í ljósi reynslunnar og sögunnar hversu vel heppnað það var þegar upp var staðið. Á það kannski sinn þátt í því að mikill fjöldi fólks tapaði enn þá meiru í hruninu en ella hefði orðið vegna þess að menn voru beinlínis hvattir til að fjárfesta í hlutabréfum á þeim tíma og kannski einmitt á tíma þegar þörfin var minni en oft endranær enda auðvelt um útvegun fjár og menn gátu sótt sér fé með skráningu á markað o.s.frv.

Ég hefði sjálfur gjarnan viljað að við fyndum leið til að útfæra einmitt stuðning af þessu tagi við nýsköpun og að við beindum t.d. fé í þann farveg ef við fyndum einhverjar leiðir til þess. Ég er ekki endilega að segja að við eigum að gefast upp við það en til þess að stofna ekki framkvæmdinni í hættu á næsta ári held ég að við eigum (Forseti hringir.) að gera þessa breytingu núna, taka þá kannski annað fyrirkomulag til skoðunar og senda það aftur í (Forseti hringir.) mat hjá ESA.