139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:32]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er ósammála hæstv. ráðherra hvað þetta snertir. Ég tel að það sé mjög þarflegt fyrir okkur að styrkja hlutabréfamarkaðinn, styrkja Kauphöllina. Út úr því fáum við sterkari fyrirtæki og lagaramminn í dag er allt annar um öll þessi viðskipti en hann var á sínum tíma. Við höfum miklu, miklu sterkari og stífari lagaramma og getum forðast það með einföldum hætti að lenda í þeim vandamálum sem við lentum í á árunum fyrir hrun. Staðan nú er allt önnur.

Mig langar að varpa annarri spurningu til hæstv. ráðherra sem tengist breytingum hvað varðar metanbíla. Kostnaður ríkisins er áætlaður um 100 millj. kr. með 100 þús. kr. afslætti til breytinga. Reikna má með að breytingarnar kosti öðrum hvorum megin við 500 þús. kr. á bíl, því verður afsláttur ríkisins væntanlega u.þ.b. bara virðisaukaskatturinn af breytingunni. Í ljósi markmiða frumvarpsins telur ráðherrann ekki að stíga megi lengra og gefa meiri afslátt til að ná þeim markmiðum? Tillögunni er ætlað að flýta fyrir þeirri þróun að metan verði notað í daglegum samgöngum á Íslandi o.s.frv. Má ekki stíga lengra í því sambandi?