139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:34]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf hægt að hugsa sér að ganga lengra, sérstaklega ef til eru nógir peningar, þá er náttúrlega enginn vandi að finna þeim farveg í góð og þörf málefni. Það er nú engu að síður okkar mat að þetta eigi að geta verkað umtalsvert hvetjandi. Hugsunin er m.a. sú að ryðja brautina með því að gera það fýsilegt að ráðast í þessar breytingar og fyrstu þúsund bílarnir fengju þá niðurgreiðslu miðað við þessar fjárheimildir. Þær eiga síðan í framhaldinu að skila sér í því að breytingarnar verði hagkvæmari og ódýrari þegar meiri fjöldaframleiðsla er komin í gang. Það verður enn þá fýsilegra að vera með metanbíl eða láta breyta bíl yfir í metan þegar dreifikerfið er orðið öflugra, fleiri stöðvar komnar o.s.frv. Þetta er hugsað sem stuðningur við að ýta því af stað. Annað sjónarmið sem við tökum alvarlega er líka uppi. Það er í samskiptum við umhverfisráðuneytið og iðnaðarráðuneytið. Ekki er meiningin að fjármálaráðuneytið gangi úr hófi fram í þá átt að stýra því nákvæmlega í hvaða vistvænu orkugjafa umferðin þróast (Forseti hringir.) heldur verði svona afmarkaðar og hóflegar (Forseti hringir.) skattalegar ívilnanir í boði til að reyna að örva framkvæmd á slíku almennt.