139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Okkur eru alveg ljós þau áform og verkefni og sá metnaður sem menn hafa fyrir hönd þessa málaflokks á komandi árum, bæði varðandi persónulega notendastýrða þjónustu, sem verður unnið að að innleiða í áföngum og farið strax í ákveðin verkefni í þeim efnum, og áhuga á því að innleiða samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra og réttindi sem honum tengjast. Ég held að öðru verði ekki haldið fram með neinum rökum en að ríkið geri vel við málaflokkinn við þessa yfirfærslu. Það er algerlega borðleggjandi að það kostar ríkið þó nokkuð meira á næsta ári og væntanlega næstu tvö ár þar á eftir að færa málaflokkinn yfir en halda hann áfram sjálft. Það er vegna þess að ríkið tekur í raun á sig allan breytingarkostnaðinn og einskiptiskostnaðinn og leggur hann fram sem fjárlög, tekur á sig kostnað vegna biðlauna út af lokunum á svæðisskrifstofum, vegna framlaga, vegna biðlista og fleira í þeim dúr. Ég tel að ríkið sýni með þessu hug sinn til þess að vel verði búið að þessum málaflokki í framtíðinni og (Forseti hringir.) að þau samskipti verði svo öll yfirfarin og endurskoðuð 2014.