139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[16:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst nú orðalag hv. þingmanns eða orðbragð í byrjun umræðunnar ekki sanngjarnt þegar hann talaði um kyrkislöngur og annað í þeim dúr og eiga allra síst við um þetta frumvarp sem að uppistöðu til er til ívilnana og umbóta á ýmsum þáttum. Enda fór hv. þingmaður yfir það í ágætri ræðu og studdi margt af því sem hér er lagt til þó hann teldi kannski sumt ekki ganga nógu langt.

Í sambandi við metanvæðinguna þá liggur nú fyrir talsvert mat á því að þar sé um spennandi kost fyrir okkur að ræða af ýmsum ástæðum. Hann hefur m.a. það í sér fólgið, sem ekki er eins auðvelt að koma við í öðrum tilvikum, að hægt er að breyta núverandi bílaflota og gera hann umtalsvert umhverfisvænni. Það er hægt að gera með orku sem við erum í færum til og höfum þekkingu og getu til að framleiða nú þegar sjálf í verulegum mæli. Þannig held ég að megi drífa um 4.000 bíla með þeirri metangasframleiðslu einni saman sem er á öskuhaugunum hér í Álfsnesi. Akureyringar og fleiri eru að hugsa sér til hreyfings í þessum efnum. Framtíðarframleiðslumöguleikar úr lífrænum úrgangi af ýmsu tagi, jafnvel haughúsum, eru umtalsverðir. Það er hins vegar enginn að boða þá stefnu að hverfa eigi frá öllum hugmyndum um vetni eða rafvæðingu og nú eigi það bara að vera metan. Ég tók það sérstaklega fram að a.m.k. af hálfu fjármálaráðuneytisins er ekki ætlunin að fara að reyna að stýra því endilega í hvaða framtíðarfarveg þetta þróast, heldur verði tæknin og hagkvæmni og umhverfismál og aðrir slíkir þættir að ráða því. Þarna er alla vega hægt að ná árangri og að margra mati umtalsverðum tiltölulega fljótt. Í þessu á að geta verið falinn bæði þjóðhagslegur sparnaður þannig að í staðinn fyrir innflutt eldsneyti komi eldsneyti sem við framleiðum sjálf og veruleg hagsbót fyrir neytendurna, því að það er alveg ljóst að í orkugildi er metan mun ódýrara en bensín eða olía.