139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ítreka velvilja minn gagnvart því frumvarpi sem lagt er fram. Breytingarnar sem í því felast eru nokkrar. Verið er að stíga jákvætt skref til að flýta fyrir endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja. Ríkisvaldið kemur til aðstoðar fjármálastofnunum sem vinna að þeirri flóknu endurskipulagningu. Við hljótum að horfa til þess að hér eru stigin jákvæð skref enda mikilvægt fyrir okkur öll að losa fyrirtæki úr höftum og koma þeim aftur í gang svo að þau geti aftur farið að ráða fólk og fjárfesta og við náum að efla atvinnulíf okkar.

Breytingarnar eru helst þær að verið er rýmka skattaleg úrræði sem fyrirtæki geta nýtt sér. Skattaleg meðferð og eftirgjöf skulda og hins vegar heimild til greiðsluuppgjörs á gjaldföllnum skattskuldum. Jákvæð skref hvort tveggja.

Mig langar að víkja aðeins að stuðningi við nýsköpun. Eins og fram hefur komið var samþykkt frumvarp fyrir um ári sem fól í sér tvenns konar stuðning, annars vegar stuðning í formi skattfrádráttar hjá nýsköpunarfyrirtækjum og hins vegar óbeinan stuðning til nýsköpunarfyrirtækja í formi skattafsláttar til einstaklinga eða lögaðila sem fjárfesta í hlutabréfum nýsköpunarfyrirtækja. Nú hefur komið í ljós að seinni hluti þessara breytinga mætir nokkurri andstöðu eða fyrirstöðu hjá ESA um að ívilnun sem felist í skattafslætti til lögaðila sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum feli í sér sjálfstæða beina ríkisaðstoð við þá lögaðila.

Ég ítreka það sem kom fram í andsvari mínu við hæstv. ráðherra að ég er fylgjandi því að við horfum til þess að rýmka reglurnar hvað varðar hlutabréfaafslátt til einstaklinga og lögaðila, sérstaklega einstaklinga, um kaup í hlutabréfum í öllum fyrirtækjum. Við erum að ívilna nýsköpunarfyrirtækjum sérstaklega og við stígum stærra skref núna með þeim breytingum sem hér eru lagðar til um að heimild til frádráttar hækki úr 15% í 20%, að hámark á rannsóknar- og þróunarkostnaði fari úr 50 í 100 millj. kr. og önnur viðmið hækki. Það er vel. En við viljum styrkja hlutabréfamarkað í landinu, a.m.k. er ég fylgjandi því að við styrkjum Kauphöllina og fáum almenning aftur til þátttöku í virðisaukningu fyrirtækja til að styrkja fjármögnun þeirra. Hvort sem við gerum það í þessum snúningi á frumvarpinu eða í vor verðum við að hvetja almenning og hjálpa almenningi að fjárfesta í fyrirtækjum, hvetja fyrirtæki til að skrá sig í Kauphöllina og styrkjast og nýta þá leið til fjármögnunar.

Við höfum nú allt aðrar reglur um þátttöku almennings og lánveitingar til kaupa á hlutabréfum en við höfðum á árunum fyrir hrun. Við höfum miklu öflugra fjármálaeftirlit. Við höfum ný lög sem gilda um þann hluta markaðarins. Þess vegna tel ég að okkur sé fullkomlega óhætt að stíga þetta skref til að fá öflugan hlutabréfamarkað aftur í gang hér sem yrði miklu gagnsærri en hann var á sínum tíma. Það hlýtur að vera lausnin við þann þröskuld sem upp hefur komið í samskiptum okkar við ESA.

Mig langar einnig að víkja aðeins að umræðunni hvað snertir metanbifreiðar. Lagt er til að 100 þús. kr. afsláttur verði veittur breyti bíleigendur bifreið sem knúin er af jarðefnaeldsneyti svo að hún geti ekið á metangasi. Menn horfa til þess að metanbifreiðar geti orðið ákjósanleg lausn til að fara úr jarðefnaeldsneyti yfir í aðra orkugjafa vegna þess að metanið liggur okkur nær, það er hægt að breyta bílum sem við eigum nú þegar. Við getum nýtt öskuhauga landsins til að búa til metangas þegar er kannski lengra í aðra valkosti, svo sem rafmagnsbíla þar sem þeir eru umtalsvert dýrari en þær bifreiðar sem knúnar eru af jarðefnaeldsneyti. Það kostar öðrum hvorum megin við 500 þús. kr., á bilinu 450 til tæplega 600 þús. kr, að breyta bíl. Því má segja að afslátturinn sem ríkið leggur til að verði veittur sé u.þ.b. virðisaukaskatturinn af breytingunni.

Í frumvarpinu kemur fram að kostnaður ríkisins sé öðrum hvorum megin við 100 millj. kr. sem er þá kannski breyting á þúsund bílum.

Ég sé þetta sem jákvætt skref og fagna því frumkvæði sem fjármálaráðuneytið stígur. Ég velti upp þeirri spurningu hvort ekki megi stíga lengra. Mér finnst þetta gott dæmi um skattalegan hvata sem ríkið getur beitt og komið á framfæri til að efla atvinnulífið og koma því aftur í gang, fá fjármagn á hreyfingu og láta flæða á ný um atvinnulífið.

Bæði hefur þetta kosti hvað varðar eflingu atvinnulífs og ekki síður í umhverfismálum. Það er ljóst að ef meðalbifreið ekur í kringum 18 þús. km á ári losar slík bifreið við bruna jarðefnaeldsneytis um 4 tonn af CO 2 . Ef bifreiðinni er breytt í metanbifreið og við ímyndum okkur að 80% af akstrinum sé á metani sparast 3,6 tonn af CO 2 . Við þá notkun sparast ekki einungis sú upphæð því að metanið, sem er notað til að knýja bifreiðina sem annars færi út í andrúmsloftið, er u.þ.b. 13 tonn af CO 2 . Því má segja að bifreið sem er ekið 80% á metangasi spari umhverfi okkar um 17 tonn af CO 2 við þá breytingu. Um er að ræða umtalsverðar breytingar í umhverfismálum. Við hljótum að fagna því.

Ég vil velta upp þeirri spurningu og ég vil gjarnan taka þá umræðu í efnahags- og skattanefnd hvort við séum að stíga nógu stórt skref til að þetta skipti máli í raun og veru. Markmið frumvarpsins eru, með leyfi forseta:

„Er þessari tillögu ætlað að flýta fyrir þeirri þróun að metan verði notað í daglegum samgöngum á Íslandi. Með því [að] hraða fjölgun á notendum metans er vonast til þess að söluaðilar og framleiðendur metans sjái sér aukinn hag í því að fjölga áfyllingarstöðvum um allt land.“

Þá er bara spurningin: Er hvati upp á 100 þús. kr., þ.e. virðisaukinn af breytingunni, nægur til þess að við fáum þá sem aka núna um á venjulegum bifreiðum til að skipta yfir í metan? Ég efast um það. Ég velti upp þeirri spurningu hvort við ættum að stíga lengra.

Að svo komnu tel ég að heilt yfir sé þetta jákvætt frumvarp. Fjármálaráðuneytið sýnir í verki að það hlustar eftir viðbrögðum atvinnulífsins við skattalegum breytingum og tekur mið af þeim, það er vel. Það er gott að við reynum að koma til aðstoðar þeim fyrirtækjum sem standa í nýsköpun. Ég ítreka að ég vil helst ganga lengra ef nokkur kostur er.