139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:11]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, vissulega var umtalsvert tap almennings á hlutabréfum. Því miður verður það erfitt verkefni og væntanlega langtímaverkefni að byggja upp traust á hlutabréfum sem valkosti til fjárfestinga. Um það erum við algjörlega sammála og að byggja þurfi upp traust á hlutabréfamörkuðum heilt yfir. En einhvers staðar verðum við að byrja. Við hljótum að vera sammála um það að hlutabréfakaup og -markaðir séu mikilvægur hluti af viðskiptalífi okkar hvort sem við rekum hlutabréfamarkað á Íslandi eða í samvinnu við aðrar Norðurlandaþjóðir. Við höfum nú miklu skýrari reglur um eignarhald og verslun með hlutabréf en við höfðum áður. Þurfum við að stíga lengra? Það getur vel farið svo til þess að byggja enn frekar upp traust. Hv. þingmaður hefur m.a. lagt fram mjög áhugavert frumvarp um gagnsæ hlutafélög sem hefur t.d. komið til skoðunar í viðskiptanefnd. Ég tel að við þurfum að stíga skref í þá átt. Við erum sammála um markmiðin. Ég tel að liður í því að efla og styrkja hlutabréfamarkað á Íslandi sé að veita almenningi afslátt til þess að kaupa hlutabréf og þangað eigum við að stefna.

Um tekjuskatt fyrirtækja vildi ég sagt hafa að tekjuskattur fyrirtækja, lögaðila, á Íslandi er nú með því lægsta sem viðgengst á hinum evrópska markaði. Ég held að einungis Írar séu fyrir neðan okkur í prósentutölu. Lögaðilar á Íslandi sem eiga fyrirtæki sem skila hagnaði geta ekki kvartað yfir skattprósentunni.