139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svolítið hugsi yfir ræðunni hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram. Á undanförnum vikum og mánuðum, m.a. í gegnum starfið í þingmannanefndinni, þar sem ég átti mjög gott samstarf við hv. þingmann, og líka þegar maður horfir svona í kringum sig, finnst manni — við töluðum svo mikið árið 2009 um að við ætluðum að byggja nýtt Ísland en svo horfir maður í kringum sig og mér finnst eins og við séum bara að endurreisa sama gamla Ísland. Við notum sömu aðferðirnar, sömu hugmyndafræðina og þess vegna verð ég svolítið slegin yfir því að sjá félaga minn koma hingað upp í ræðustól og tala fyrir því að eitt af því sem við ættum að fara að gera núna sé að veita almennan skattafslátt varðandi hlutabréfakaup. Þó að það sé þannig að við getum kannski ekki innrætt góðmennsku í fólk eða sagt því að vera siðlegt í störfum sínum og gerðum getum við samt búið til ramma þar sem við hvetjum fólk til að gera ákveðna hluti sem við teljum vera jákvæða fyrir samfélagið. Ég mundi telja að áður en við förum út í að veita fólki skattafslátt fyrir að fjárfesta í hlutabréfum ættum við kannski að íhuga það hverjir það eru sem taka á móti fólki núna í biðröðum hjá góðgerðasamtökum. Gætum við kannski ekki byrjað á að veita þeim skattafslátt fyrst, t.d. með því að afnema erfðafjárskattinn af þeim, sjá til þess að þau þurfi ekki að borga fjármagnstekjuskatt og líka hvetja einstaklinga sem eiga mikið laust fé, að þeir geti fengið skattaívilnun með því að gefa fé til þessara samtaka? Það væru ákveðin skilaboð um að við vildum ekki endurreisa gamla Ísland heldur að við vildum búa til nýtt og betra Ísland.