139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:21]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Efnislega vil ég leggja áherslu á það hver nálgun mín er við þetta umtalsefni. Við horfum fram á að það er mikið af ónýttu fjármagni inni í fjármálastofnununum. Okkur langar öll að koma því í umferð. Við horfum fram á að stóran hluta íslenskra fyrirtækja vantar fjármagn. Við horfum fram á að stór hluti íslenskra fyrirtækja er í gjörgæslu fjármálastofnana, er á leið í endurskipulagningu og er þess vegna tilbúinn til að ráðast í fjárfestingar eða ráða fólk. Ein leið fyrir þessi fyrirtæki hlýtur að vera að fara á almennan hlutabréfamarkað og sækja þangað fjármagn til fjárfestinga. Það er besta leiðin til að hjálpa öllum almenningi í landinu. (Gripið fram í.) Ef við fáum almenning til þess að taka þátt í þessum breytingum, hafa trú á fyrirtækjum sem koma inn á þennan markað, með sterkum eftirlitsiðnaði — og ég ætla að berjast fyrir því að Fjármálaeftirlitið verði öflugt, Samkeppniseftirlitið verði öflugt, Kauphöllin íslenska verði öflug, fái ég einhverju um það ráðið, til að við gætum að því að við gerum ekki sömu mistök og gerð voru hér á árunum eftir aldamótin fram til áranna 2007 og 2008. Bankarnir léku þar lykilhlutverk, við höfum allt annað regluverk um bankastarfsemi í landinu í dag en við höfðum þá.

Ef okkur langar að gera vel við nýsköpun í landinu, ef okkur langar að gera vel við fyrirtæki í útflutningi sem eru að sækja fram með góðar viðskiptaáætlanir, eigum við að horfa til þess að geta hjálpað almenningi til að taka þátt í því. Ef við getum með einhverjum hætti hvatt almenning til að taka þátt í umbreytingu þessara fyrirtækja er það vel og það ætla ég að styðja.