139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Mér finnst einmitt oft að við tölum óskaplega lítið um pólitík í þinginu og ég tel að hér séum við svo sannarlega að tala um pólitík og pólitíska hugmyndafræði.

Það sem mér fannst svo áhugavert í upptalningunni hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni var að hann var að tala um öfgar þegar hann fjallaði um hin ýmsu kerfi. Það er í rauninni það sem ég er að tala fyrir, um mikilvægi þess að við séum ekki með þessar öfgar. Að í öllum þeim kerfum sem við búum til gerum við okkur grein fyrir veikleika fólks. Ég held að það sé nákvæmlega það sem þingmaðurinn var að segja í lokaorðum sínum, að tryggja það að fólk starfi innan rammans.

Ég held að það sé kannski að hluta til ástæðan fyrir því að ég er framsóknarmaður vegna þess að eins og hann talaði um ef maður fer frá anarkistum til framsóknarmanna þá held ég að maður geti farið aðeins lengra eftir línunni og við reynum yfirleitt að vera á miðjunni og hafa ákveðið jafnvægi í hlutunum. Það var það sem ég talaði um áðan, að við þurfum að búa til blöndu af mismunandi tegundum fyrirtækja þannig að fólk geti náð árangri á mjög fjölbreyttan máta. Og eins og ég sagði skiptir ríkið þar miklu máli en við leysum ekki öll vandamál Íslands með því að gera ríkisgeirann sem stærstan og mestan. Við leysum hann heldur ekki eins og við sjáum með því að reyna að gera einkageirann sem stærstan og mestan en ég vona hins vegar að með því að hafa þetta jafnvægi og þriðji geirinn sé kominn þarna líka þar sem sterk áhersla er á samfélagslega hugsun, með jafnvægi á milli þessara þriggja geira þá getum við svo sannarlega búið til, þó að það sé klisja, betra Ísland.