139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir áhugaverðar umræður um hugmyndafræði sem átt hafa sér stað milli hv. þingmanna Tryggva Þórs Herbertssonar og Eyglóar Harðardóttur. Ég hugsaði, þegar ég hlustaði á leiðina milli anarkistans og framsóknarmannsins, að sennilega væri ég þar mitt á milli. Mér líður ágætlega á því bili og vildi hvorugt hitt vera. En það er önnur saga.

Ég ætla að halda mig við efni frumvarps svo langt sem það nær. Ég hef ekki miklu við ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar að bæta. Ég ætlaði að hlaupa á nokkrum atriðum sem ég tel mikilvægt að hv. efnahags- og skattanefnd veiti athygli. Vildi nefna þau vegna þess að ég held að það megi gera frumvarpið betra. Ég heyri að frumvarpið er stundum kallað góði bandormurinn. Hann er ekki jafnslæmur og hinn, miklu betri svo því sé til haga haldið. (Gripið fram í.) Meðaltalið er hlutlaust en breytingarnar sem lagðar eru til eru flestar til bóta sýnist mér.

Frumvarpið er reyndar 56 greinar og margar nokkuð tæknilegar. Við yfirferð á þessu sýnist mér að að meginstefnu til sé frumvarpið til bóta sem er afar ólíkt því sem gerðist með fyrri bandorminn sem nú er til meðferðar hjá efnahags- og skattanefnd. Hins vegar eru þarna atriði þar sem mér sýnist í fljótu bragði að gera megi betur. Ég treysti því að um það geti náðst ágæt sátt í efnahags- og skattanefnd þegar menn skoða þau atriði. Um atriðin þarf ekkert endilega að vera sérstakur pólitískur ágreiningur því þarna er um að ræða atriði, í flestum megindráttum, sem varða tæknilega útfærslu frekar en verið sé að takast á um pólitíska meginstefnu. Alla vega ekki á jafnbreiðum, víðtækum eða djúpstæðum grunni og átti sér stað í umræðum hv. þingmanna áðan.

Ég vildi hlaupa yfir þetta þannig að ég lengi umræðuna ekki úr hófi en eins og ég segi er komið víða við. Þetta eru 56 greinar og ég veit ekki hvað fjallað er um mörg mismunandi ákvæði skattalaga og skyldra laga. Ég mun ekki tjá mig neitt um breytingarnar sem verða vegna flutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Mér sýnist að það sé tiltölulega einfalt atriði og ég tjái mig ekki um það. Ég nefni bara, til að hlaupa yfir þetta, atriðin sem lúta að ákveðnum útfærslum sem varða tekjufærslu á óinnleystum gengishagnaði. Þar virðist vera um jákvæða breytingu að ræða sem er eðlileg og fyrst og fremst leiðrétting á einhverju sem hefði átt að sjá betur við setningu gildandi reglna.

Varðandi skattalega meðferð á eftirgjöf skulda er mikilvægt að tekið sé á því máli. Ég held hins vegar að þarna þurfi að huga töluvert betur að útfærslunni þannig að ákvæðið nái tilgangi sínum svo það verði ekki eins og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson vék að í ræðu sinni, tekinn út hagnaðarhvati hjá fyrirtækjum frá fimm og upp í tíu ár. Ég held að það sé ekki leiðin þannig að það þarf með einhverjum hætti að finna lausn í því.

Það má nefna fleiri atriði. Það eru atriði sem varða nýsköpunarverkefni. Þar er verið að gera breytingar sem eru til bóta í ákveðnum tilvikum. Það má segja að verið sé að stíga jákvæð skref að einu leyti meðan bakkað er á öðrum sviðum. Við vitum að komið hafa fram skýringar á því hvers vegna verið er að bakka. Það er vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA sem lúta fyrst og fremst að útfærslu aðstoðarinnar sem á að felast í þessum reglum. Það er eðlilegt að það sé endurskoðað. Ég verð þó að nefna og taka undir orð hv. þingmanna Magnúsar Orra Schram og Tryggva Þórs Herbertssonar að við þær aðstæður að hlutabréfaafsláttur, vegna kaupa á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum, er felldur út þá teldi ég að skoða ætti af fullri alvöru almennan hlutabréfaafslátt vegna hlutafjárkaupa. Það mundi nýtast nýsköpunarfyrirtækjum alveg örugglega. Það mundi líka nýtast öðrum fyrirtækjum.

Það er rétt og við þær aðstæður sem við búum við í efnahagslífinu þá veitir okkur ekkert af hvötum af því taginu til að efla fjárfestingu í atvinnustarfsemi. Þarna er um að ræða þekkta en tiltölulega einfalda leið til að hvetja til þátttöku almennings í atvinnustarfsemi. Ég held að það sé sjálfsagt mál að finna leiðir til að gera þetta. Ég held að það sé sjálfsagt mál að við reynum að útfæra þetta þannig að það sé hægt. Það hefur verið minnt á að hlutabréfaafslætti af þessu tagi var komið á sennilega snemma á 10. áratugnum en afnuminn nokkrum árum síðar. Þetta var tæki sem tímabundið var notað til að koma hlutabréfamarkaði á einhvern rekspöl. Þó að atburðir hafi orðið löngu síðar sem voru slæmir fyrir fjármálamarkaði og efnahagslífið almennt þá er ekkert samhengi þar á milli. Ég held að við eigum að skoða þessa leið og finna útfærslu sem getur staðist og getur orðið til að örva fjárfestingu í atvinnustarfsemi.

Það er rétt sem bent hefur verið á í þessari umræðu að það er margt annað sem fælir fólk frá þátttöku á hlutabréfamarkaði, það er margt annað. Það eru margir brenndir eftir reynslu síðustu ára þegar sparnaður sem lá í hlutabréfum hvarf á örskotsstundu, það er alveg rétt. En við erum væntanlega flest, kannski ekki öll, sammála um að við viljum koma aftur á hlutabréfamarkaði með svipuðum hætti og gerist í löndum sem eru skyld okkur að hefðum, menningu og umhverfi atvinnulífsins. Við viljum hafa hlutabréfamarkað með einhverjum hætti eins og í vestrænum löndum, þykist ég vita. Við hljótum að horfa til samanburðar þangað en ekki til Norður-Kóreu eða annarra slíkra landa. Þó að þetta sé engin töfralausn þá getur það verið áfangi eða eitt af mörgum úrræðum sem við getum notað til að gera hlutabréfamarkað fýsilegri til þátttöku fyrir almenning.

Svo þarf að gera fjöldann allan af öðrum hlutum til að hlutabréfamarkaðurinn verði fýsilegri kostur fyrir almenning. Við getum rætt það í löngu máli en alla vega fyrst við ræðum þetta í tengslum við frumvarpið þá tel ég að við eigum að skoða það.

Síðan eru fleiri atriði sem mætti staldra við. Reyndar atriði sem kemur á óvart að skuli vera tekin með í frumvarpinu, m.a. breytingar á lífeyrissjóðslögum sem ekki hafa beina skírskotun til skattalegu þáttanna sem fjallað er um í flestum ákvæðum frumvarpsins. Síðan breytingar á aukatekjulögum sem varða dómsmálagjöld sem hægt væri að ræða sérstaklega. Ég ætla ekki að gera sérstakar athugasemdir við þær en af því að það hefur ekki verið nefnt áður þá hvet ég hv. efnahags- og skattanefnd að fara yfir forsendur bæði breytinganna sem lagðar eru til og eins áætlanir sem búa að baki þegar fullyrt er hverju breytingarnar muni skila. Ég held að það sé mikilvægt. Það segi ég sem nefndarmaður í allsherjarnefnd sem fæst við hina hliðina á málinu, þ.e. hvernig á að eyða peningunum sem aflað er með þessum hætti. Gert er ráð fyrir fjölgun dómara og annarri eflingu dómstóla sem á að fjármagna með þessum aukatekjum. Ég játa að án þess að hafa kafað í málið þá er ég ekki sannfærður um að þetta muni skila jafnmiklu og áætlanir gera ráð fyrir. Ég skora á hv. efnahags- og skattanefnd að sleppa ekki yfirferð sinni í þessari umfjöllun um aukatekjur ríkissjóðs þannig að því sé til haga haldið.

Ég vil að lokum nefna eitt atriði sem ekki hefur verið mikið rætt í þessu samhengi. Það varðar breytingar sem snerta auknar heimildir skattrannsóknarstjóra. Það hafa verið færð rök fyrir breytingunni að þarna sé verið að einfalda ferli. Það kann að vera gott og rétt en það er hins vegar nauðsynlegt að menn velti því fyrir sér hvernig verkaskiptingin á að vera milli skattrannsóknarstjóra annars vegar og handhafa ákæru- og lögregluvalds hins vegar. Atriðin sem þarna er drepið á eru bara lítið púsl í stærra samhengi sem þarf að skoða áður en gengið er frá breytingum af þessu tagi. Það kann að vera að breytingin sé góð og nauðsynleg eða skynsamleg en ég held að þetta þurfi að skoða í samhengi við verkaskiptingu stofnananna sem ég hef á tilfinningunni að þurfi að endurskoða í víðara samhengi.

Hæstv. forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði að með lagfæringum og breytingum horfi frumvarpið almennt til bóta. Sumar breytinganna sem lagðar eru til eru leiðrétting á mistökum eða einhverju sem mönnum sást yfir við afgreiðslu skattalagabreytinga á síðasta ári. Á það hefur m.a. verið bent af hálfu Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs að margar tæknilegar breytingar mætti gera á skattalögunum sem gætu nýst atvinnulífinu án þess að það fæli endilega í sér neina sérstaka tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð. Í einhverjum ákvæðum er komið til móts við ákveðnar tillögur samtakanna í því samhengi. Ég vildi beina því til hv. efnahags- og skattanefndar að hún skoði við meðferð málsins enn fremur aðrar tillögur sem þessi samtök hafa sett sameiginlega fram, m.a. í ágætri skýrslu í september sl. þar sem tiltekin voru allmörg atriði í skattalögunum sem væri hægt að laga, snurfusa atvinnulífinu til hagsbóta án þess að það þyrfti endilega að fela í sér einhverja tekjuskerðingu fyrir ríkissjóð.

Svo vildi ég að lokum, hæstv. forseti, nefna að það er miklu jákvæðara að tala um skattamál atvinnulífsins á þeim nótum sem við gerum í sambandi við þetta frumvarp þar sem verið er að reyna að lagfæra hlutina og koma þeim í eðlilegt horf frekar en þegar við ræðum aðrar tillögur hæstv. fjármálaráðherra sem fela fyrst og fremst í sér aukna skattbyrði atvinnulífsins og annarra aðila, almennings og heimila í þessu landi eins og við höfum séð allt of mörg dæmi um á síðustu 20 mánuðum.