139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[17:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld. Þetta er mjög víðtækt hugtak og hér kennir líka margra grasa og margt er til bóta.

Það gladdi mig þegar hæstv. fjármálaráðherra, sem er reyndar ekki við, sagði að hann féllist yfirleitt á sanngjarnar breytingar og þá býst ég við að hann fari að endurskoða skattlagningu á neikvæða raunvexti sem hefur verið í gangi undanfarið en minnkar kannski núna þegar verðbólga minnkar en það hefur verið afskaplega ósanngjörn skattlagning. Svo finnst mér vanta í greinargerð þessa frumvarps tilvísun í viðkomandi greinar í lögunum. Ég á í standandi vandræðum með að finna — kannski er það gáfnafar mitt sem stendur í vegi fyrir því — hvar t.d. lækkun á erfðafjárskatti af sölu á eign út úr dánarbúi er falið í þessu frumvarpi.

Fyrst er rætt um tekjuskatt í ríkissjóð og tekjustofna sveitarfélaga vegna flutnings málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Hér var sagt að þetta sé tiltölulega einfalt mál en þá eingöngu, frú forseti, skattalega séð. Það er ekki einfalt fyrir félagsmálanefnd að glíma við málið með mjög miklu hraði og gera það þokkalega en það er annað. Hér er verið að ræða um notendastýrða þjónustu sem margir binda miklar væntingar við og á að vera ákveðið tilraunaverkefni í þeim lögum. Svo er verið að flytja 1,2% af tekjustofni ríkisins yfir til sveitarfélaganna af grunntekjum án frítekjumarka. Það eru sem sagt 1,2% af launum allra landsmanna af því að þetta er útfært sem flatur skattur. Það fer alveg frá fyrstu krónu og þá er í rauninni verið að segja að málefni fatlaðra kosti 1,2% af tekjum þjóðarinnar.

Síðan er skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda lögaðila. Þetta er mjög flókið mál og ég ætla í hv. efnahags- og skattanefnd þar sem ég á sæti að kalla eftir upplýsingum og átta mig á hvað þetta raunverulega þýðir, hvort það geti verið að þetta þýði að fyrirtæki megi ekki sýna hagnað næstu árin. Þá verður náttúrlega að laga það einhvern veginn því að það er ekki beint hvetjandi til að reyna að lifa af eða taka þátt í þessu.

Svo er talað um greiðsluuppgjör á gjaldföllnum skattskuldum. Ég kom inn á það áðan að þeir sem þola ekki að skulda og gera alltaf upp eins og þeim ber og kreista síðasta blóðdropann fram til þess fá ekki svona góð kjör. Það kom til mín maður eftir síðustu aðgerð og var ekki lítið reiður því að hann hafði lagt mikið á sig að borga allar tekjuskattsskuldir fyrirtækisins og svo kom held ég viku seinna eða svo tilkynning um að nú hefði hann getað fengið þetta allt saman vaxtalaust og til langs tíma.

Nokkur umræða hefur spunnist um nýsköpunarfyrirtækin. Ég er reyndar alltaf dálítið á móti því að skera úr ákveðinn flokk fyrirtækja og segja: Þetta eru góð fyrirtæki og okkur hugnanleg. Önnur fyrirtæki séu ekki góð af því að þau eru ekki í nýsköpun. Ég held að flest fyrirtæki séu í nýsköpun ef maður horfir grannt til þess, bara öll, þau eru alltaf að reyna að þróa eitthvað nýtt. Meira að segja gamalgróin sjávarútvegsfyrirtæki sem gera út eru alltaf að skoða hvort ekki megi auka möskvann, stækka eða breyta einhverju og eru þar af leiðandi alltaf að reyna að stunda einhverja nýsköpun. En það sem ég óttast í þessu og ætti að vera tilefni til að vekja mönnum ákveðinn ugg er að ég tel að forsendubrestur þjóðarinnar í hruninu hafi verið sá að atvinnan hvarf. Það hurfu sennilega 22 þúsund störf eða eitthvað slíkt. Það olli því að margir misstu vinnuna og urðu atvinnulausir og forsendur þess að greiða af láninu þeirra eða húsaleiguna brustu. Það eru forsendubrestir, frú forseti. Aðrir misstu yfirvinnuna, sumir misstu hitt starfið sitt o.s.frv. En aðalvandi þjóðarinnar í dag er skortur á atvinnu, atvinnu sem hvarf. Ef allir hefðu svipaða atvinnu og var fyrir hrun væri enginn vandi að borga eða miklu minni vandi að borga af verðtryggðum lánum, verðtryggðri neyslu og öðru slíku eða verðtryggðri húsaleigu. Vandinn er skortur á atvinnu. Margir flýja til útlanda vegna þess að þá vantar atvinnu á Íslandi eða þeir fá ekki nægilega mikla atvinnu eins og var áður.

Til þess að skapa atvinnu, frú forseti, er ekki nema eitt eða tvennt. Það er annaðhvort áhættufé, hlutafé, eða fjárfesting og fjárfesting verður ekki til nema með áhættufé eða lánsfé og til að fyrirtæki fái áhættufé eða lánsfé þarf sá sem lánar því eða kaupir hlutabréf í því að treysta því. Hann þarf að treysta því að hann lendi ekki í sömu hremmingunum og fyrir hrun því að hrunið var aðallega hjá litlu hluthöfunum og lánveitendum þessara fyrirtækja. Það sem við erum að frétta núna, skandalarnir sem koma á hverjum degi eða hverri viku, eru ill tíðindi fyrir þá sem töpuðu hlutabréfum sínum. Þeir sjá núna ástæðuna fyrir því að þeir hrundu, að þeir töpuðu 80 milljörðum. Ég minni á að þær aðgerðir sem er verið að gera núna til handa skuldugum heimilum eru upp á 100 milljarða, þannig að þetta voru stórar tölur þar sem sparifé hreinlega hvarf. Við verðum einhvern veginn að skapa traust á fyrirtæki þannig að menn séu tilbúnir til að kaupa hlutabréf eða lána þeim þannig að þau geti farið að fjárfesta og geti farið að skapa atvinnu. Þannig er það. Og allur sá niðurskurður sem menn eru að fara í er náttúrlega alveg sérstaklega sársaukafullur vegna þess að fólkið hefur engin störf til að fara í, það fólk sem er sagt upp. Það fer í rauninni af launaskrá hjá ríkinu yfir á atvinnuleysisbætur hjá Atvinnuleysistryggingasjóði, hvort tveggja á kostnað ríkisins. Það sem menn verða að gera núna er að skapa atvinnu númer eitt, tvö og þrjú og einn þáttur í því er að auka traust á þessu formi.

Ég hef lagt til að það mætti auka traustið þannig að búa til svokölluð gagnsæ hlutafélög þar sem allur eigendastrúktúrinn liggur fyrir og peningar megi aldrei fara í hring, eins og gerðist trekk í trekk í trekk og getur gerst enn þá. Það er ekkert sem hindrar það í dag að peningar fari í hring nákvæmlega eins og gerðist fyrir hrun. Það er ekkert annað. Menn geta átt hlutafé úti um allan heim sem enginn veit um, og þeir lána til þeirra og þau koma svo aftur, hlutabréf o.s.frv., og peningarnir fara í hring nákvæmlega eins og gerðist. Þess vegna er svo lítið traust og þessu þarf að breyta. Svo þurfa menn náttúrlega að fara að tala fallega um fjármagnseigendur, það er bara þannig, hætta að hnýta alltaf í þá og hnjóða og segja að þeir séu ljótir karlar af því að þeir eyða ekki öllu sínu í vitleysu og eru ráðdeildarsamir og leggja fyrir, fjármagnseigendur eru nefnilega heimilin.

Þá er kafli um breytingu á lífeyrislögunum. Ég er dálítið uggandi yfir því. Þarna er verið að framlengja það að munur á skuldbindingum lífeyrissjóðanna og eignum megi ekki vera meiri en 10% eða það var þannig. Það var hækkað upp í 15% í kjölfar hrunsins og nú á að fara að framlengja það. Það má eiginlega ekki framlengja þetta mikið lengur því að þarna er í rauninni verið að negla niður ákveðna stöðu sjóðanna sem segir að þeir geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þessu þarf að taka á, frú forseti, fyrr en seinna. Vandinn við að taka á þessu er sá að við erum með þrískipt lífeyriskerfi. Við erum með B-deild LSR sem kostar að mig minnir 400 milljarða, þegar ég kíkti á það síðast, sem eru ógreiddir og berum þetta saman við Icesave. Þetta er ógreidd skuldbinding ríkissjóðs gagnvart hluta af starfsmönnum sínum sem eru í B-deild og hafa mjög góðan lífeyri, oft af nokkuð háum tekjum eða mjög háum tekjum, það er hægt að segja það. Svo erum við með A-deildina sem nálgast að vera eins og hjá almennu sjóðunum nema iðgjaldið þyrfti sennilega að fara upp í 19% í staðinn fyrir að vera 15,5, jafnvel 19,5% vegna afleiðinga hrunsins. Það hefur ekki verið gert. Bæði þessi kerfi eru með ríkistryggð réttindi og eignarrétturinn gildir. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að drífa í því að laga B-deildina þannig að menn hætti að ávinna sér rétt þar. Það er hægt að gera það 12 mánuði fram í tímann og þá verður bara litið á það sem uppsögn. Það er spurning um að gera það bara núna, að stoppa réttindavinnslu í B-deildinni sem kostar ríkissjóð svona gífurlega mikið og menn geta þá farið yfir í A-deildina með framhaldið. Þarna eru 400–500 milljarðar, ekki milljónir heldur milljarðar ógreiddir sem ríkissjóður skuldar. Og það er ekki hægt að taka á hinum vandanum um 15% muninn hjá almennu sjóðunum.

Svo eru það almennu sjóðirnir með 12% iðgjald, flestir — sumir eru með hærra eins og Lífeyrissjóður flugmanna sem er með 20% en það er önnur ástæða — þar er yfirleitt 12% iðgjald og þeir standa illa. Þar er engin leið að bæta stöðuna nema skerða réttindin eða hækka iðgjaldið, þ.e. hækka iðgjaldið á venjulegt launafólk á sama tíma og opinberu sjóðirnir hækka iðgjaldið á ríkissjóð, þ.e. á skattgreiðendur. Þetta er vandamál sem við þurfum að glíma við og það merkilega er, frú forseti, að hjá ríkissjóði vinnur fólk sem er í öllum þrem geirunum. Reyndar er búið að laga stöðu þeirra sem eru í almennu sjóðunum hjá ríkissjóði að einhverju leyti eftir mjög flóknum leiðum en þetta er niðurstaðan. Ég held að við þurfum að vinna að því, og kannski er tækifæri til þess núna, að stöðva réttindaávinnsluna í B-deildinni, byrja á því og fá kannski upplýsingar um hvaða lífeyrisréttindi eru þar í gangi.

Síðan eru breytingar á heimildum skattrannsóknarstjóra með það að markmiði að einfalda og flýta málsmeðferð gagnvart þeim aðilum sem eru til rannsóknar. Þetta er mjög jákvætt ef það gengur ekki inn á eitthvað sem kallast lögregluríki eða fer inn á þá braut. Það þarf nefndin að skoða mjög vel og fá upplýsingar um.

Svo er kaflinn Ýmsar breytingar. Þar er verið að leggja til að endurgreiða megi vörugjöld allt að 100 þús. kr. vegna ökutækja sem ganga fyrir bensíni eða dísílolíu en breytt hefur verið þannig að þau ganga fyrir metani. Þetta er jákvætt, þ.e. ef við trúum metanvæðingunni. Metan er mjög mikill mengunarvaldur ef maður trúir á hitnun jarðar og lítur á það sem mengun. Metan mengar að mér skilst 10 sinnum meira en koldíoxíð, þannig að með því að brenna metan erum við í raun og veru að vinna tvennt. Við komumst hjá því að brenna jarðefni, koldíoxíð sem eykur hitnun jarðar, og við erum að koma í veg fyrir að metan mengi og valdi hitnun jarðar. Það sem vantar er það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom inn á áðan og það er: Hver er arðsemin? Hvað kostar metanið? Ég hef ekki séð neinar tölur um það og það er rétt að hv. nefnd skoði það, ég man að það var lögð pípa frá Álfsnesi til Reykjavíkur eða í áttina og hún kostaði 90 millj. Er það inni í kostnaðinum við að vinna metanið? Hver er kostnaðurinn við að vinna metanið?

Hér er talað um stimpilgjald, að það eigi að framlengja það þegar ný eða breytt skuldabréf eru gefin út til uppgreiðslu vanskila. Frú forseti. Mér finnst einhvern veginn að þetta sé ósiðlegur skattur. Það er verið að skattleggja vandræði fólks. Menn eru ekki að greiða upp skuldabréf og breyta því yfir í ný skuldabréf eða breyta skuldabréfinu nema af því að þeir eru í standandi vandræðum. Þarna á ríkið virkilega ekki að vera að skattleggja vandræðin og fátæktina. Þetta er ljótur skattur, hann er bara ósiðlegur. Ég vildi gjarnan að þetta yrði framlengt til eilífðar og afnumið. Og af því að nú situr vinstri stjórn hinna vinnandi manna ætti hún að sameinast bak við þessa hugmynd mína að afnema þennan skatt.

Svo er fjallað um tekjufærslu á óinnleystum gengishagnaði á gengisreikningum. Þetta var þannig og það var bent á það í fyrra að ekki væri hægt að framkvæma þetta. Menn gátu verið með tvo reikninga og annar hækkað og hinn lækkað og þá áttu þeir að borga skatt af þeim sem hækkaði og svo þegar þeir hækkuðu aftur árið eftir áttu þeir að borga skatt af hinum sem hækkaði. Þeir voru að borga skatt af stöðu sem var eiginlega núll þannig að þetta var ekki hægt.

Svo er hér erfðafjárskattur af söluhagnaði íbúðarhúsnæði. Ég hef ekki séð þetta en ég geri ráð fyrir að þetta sé þannig að ef erfingjar selja íbúðina eftir að þeir hafa erft hana borga þeir fjármagnstekjuskatt en ef dánarbúið selur hana áður en því í skipt er söluhagnaðurinn skattskyldur með erfðafjárskatti. Þetta þurfum við að skoða.

Svo er talað um vaxtabætur, þ.e. gjaldfallnar vaxtabætur. Þetta er náttúrlega alveg galið fyrirbæri í dag að menn geti verið að fá greitt út úr ríkissjóði fyrir eitthvað sem þeir greiddu ekki sjálfir. Þeir geta frestað því að greiða, farið í greiðsluverkfall, borgað ekki neitt sjálfir en fengið svo greitt úr ríkissjóði. Það þykir sumum mjög ljúft og gott en það er ekki gott fyrir ríkissjóð. Ég er mjög hlynntur þessari breytingu.

Síðan er skattlagning einstaklinga sem búsettir eru erlendis. Þarna er verið að gera tilraun til að lokka menn til landsins.

Dómsmálagjöld eru hækkuð mjög mikið og það finnst mér líka eðlilegt miðað við gífurlegt umfang mála og miklu, miklu stærri tölur en menn hafa nokkurn tíma séð.

Loks eru gjöld innheimt af Fiskistofu. Gerð er breyting á þeim og þau hækkuð sem er svo sem sjálfsagt en það er eiginlega eina hækkunin sem ég sé í þessu.