139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

skattar og gjöld.

313. mál
[18:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að menn líti svo á, alla vega þegar sagan er skoðuð, að það verði auðvitað ekki horft fram hjá samhengi lífeyrisréttinda og launa. Almennt var það viðurkennt að á löngu árabili var það metið þegar samið var um kaup og kjör og sérstaklega við opinbera starfsmenn að lífeyrisréttindi þeirra væru önnur og betur tryggð en annarra. Það eru a.m.k. rök þeirra og sjónarmið þeirra þegar þeir mæta kröfum um að þetta verði með einhverjum hætti skert afturvirkt að þetta hafi verið hluti af umsömdu kjaraumhverfi þeirra og þeir hafi þá sæst á lægri laun en ella hefði verið.

Varðandi framtíðina held ég að menn eigi hvorki að mikla fyrir sér vandann sem þar er bundinn né heldur gera lítið úr honum. Það er auðvitað alveg ljóst að það þarf að undirbúa og hefja sem fyrst aftur inngreiðslur inn á skuldbindingarnar sem ríkið ber vegna B-deildarinnar. Illu heilli voru menn allt of linir við það á þeim tímum þegar afkoma ríkissjóðs var góð að viðhalda inngreiðslum í kerfið sem fóru ágætlega af stað í kringum aldamótin 2000 en síðan dró úr þeim svo merkilegt sem það var á tímum mjög mikils afgangs af ríkissjóði. Og það er sorglegt að sjá árin sem liðu hjá með bærilegri stöðu ríkissjóðs til að greiða inn á þessar lífeyrisskuldbindingar sem voru lítið notaðar.

Þó er vandinn ekki meiri en svo að ef við getum sem fyrst, segjum innan tveggja til þriggja ára, hafið inngreiðslur inn á þennan reikning sem nemi 7–9 milljörðum kr. á ári mun kerfið ná jöfnuði að lokum og aldrei kemur til neinna sjóðsvandræða. Án inngreiðslna mun kerfið standa undir sér eða eiga fyrir útgreiðslum fram til 2022–2024 þannig að við höfum nokkurn tíma fyrir okkur til að undirbúa það að takast á við þennan vanda. En hitt er ljóst og mikilvægt að við drögum sem fyrst skil á milli þess sem liðið er og áfallið er og þess framtíðarfyrirkomulags sem við þurfum að fara að leggja af stað inn í.