139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[18:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2010.

Nefndin hefur haft frumvarpið til athugunar eftir 2. umr. og leitað skýringa hjá fjármálaráðuneyti varðandi breytingar á fjárheimildum.

Meiri hlutinn gerir breytingartillögu við sundurliðun 2 sem nemur alls tæpum 24 milljörðum kr. til hækkunar gjalda. Auk þess eru gerðar breytingar á 4. gr., sem er heimildagrein.

Þá eru gerðar breytingar á tekjugrein í ljósi nýrra upplýsinga um innheimtar tekjur það sem af er þessu ári en gert er ráð fyrir 3 milljarða kr. hækkun á greiðslugrunni frá 2. umr. um frumvarpið þar sem horfur eru á að innheimta á tekjuskatti lögaðila verði betri en áður var áætlað. Rekstraryfirlit í 1. gr. og viðeigandi liðir í 2. gr., sjóðstreymi ríkissjóðs, uppfærast í samræmi við framangreindar breytingar. Heildartekjur ársins 2010 verða 477.692,2 millj. kr. og heildargjöld 559.524,7 millj. kr. Heildarjöfnuður verður því neikvæður um 81.832,5 millj. kr.

Ég mun nú fara yfir skýringar á breytingartillögunum. Lagt er til að fjárheimild mennta- og menningarmálaráðuneytis verði aukin um 1,4 millj. kr. vegna aukinnar þarfar fyrir þjónustu námsráðgjafa, kennara og kennslustjóra á árinu 2010 í kjölfar þess að fangelsið í Bitru var tekið í notkun sl. vor. Stór hluti fanga stundar þar nám, þar af allmargir fjarnám í Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Lagt er til að fjárheimild dómsmála- og mannréttindaráðuneytis verði aukin um 15 millj. kr. vegna framlags til Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Framlagið er til leiðréttingar á rekstrarstyrk sem félagið átti að fá samkvæmt samningi við dómsmálaráðuneytið.

Þá er lagt til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði aukin um 23.725 millj. kr. Sérfræðingar Ríkisendurskoðunar, Fjársýslu ríkisins og fjármálaráðuneytisins hafa eftir ítarlega skoðun á meðferð á ríkisábyrgðum sem fylgdi við einkavæðingu bankanna og þegar Lánasjóður landbúnaðarins var seldur til Landsbanka Ísland hf. árið 2005 komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að þær verði færðar yfir á efnahagsreikning. Því er lagt til gert sé ráð fyrir 24,8 milljarða kr. fjárheimild vegna gjaldfærslu á þeim ríkisábyrgðum á lánum sem ríkissjóður mun taka yfir vegna föllnu bankanna.

Ábyrgð ríkissjóðs er einföld í öllum tilvikum. Það merkir að kröfuhafar verða fyrst að ganga að skuldara og sanna greiðslufall hans, t.d. með gjaldþroti skuldara, áður en hægt er að ganga að ríkissjóði. Ríkissjóður mun eftir sem áður gera kröfur í þrotabú bankanna um endurheimtur. Í heildarupphæðinni eru 22,5 milljarðar kr. vegna gjaldfærslu á uppreiknuðum höfuðstól þessara ábyrgða sem gert er ráð fyrir að gera þurfi í ríkisreikning ársins 2010. Það felur jafnframt í sér að afborganir og uppgreiðslur á slíkum lánum munu þá ekki lengur fara í gegnum rekstrarreikning ríkissjóðs með framlögum til Ríkisábyrgðasjóðs heldur færast til skuldar í efnahagsreikningi ríkisins með sama hætti og aðrar skuldbindingar sem hann verður að standa skil á. Verður því jafnframt lagt til að fjárheimild vegna þessara framlaga til Ríkisábyrgðasjóðs í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 verði felld niður við 2. umr. frumvarpsins en sú fjárhæð nemur liðlega 3 milljörðum kr. Engar greiðslur úr ríkissjóði eiga sér stað við þessa ráðstöfun heldur er eingöngu um að ræða gjaldfærslu í ríkisreikninginn.

Frá því að bankarnir þrír féllu í október 2008 hefur ríkissjóður greitt af þessum lánum eftir því sem þau féllu á gjalddaga til að forða því að þau færu í vanskil. Því er til viðbótar gert ráð fyrir að hækka þurfi fjárheimild liðarins um rúmlega 2,2 milljarða kr. þar sem framlög til Ríkisábyrgðasjóðs vegna afborgana og vaxta af þessum lánum hafa verið vanáætluð sem því nemur í gildandi fjárlögum.

Þegar ríkisviðskiptabankarnir voru gerðir að hlutafélögum og einkavæddir hvíldu á þeim ýmsar skuldbindingar vegna skuldabréfa með ríkisábyrgð sem þá höfðu verið útgefin. Ríkið ber því enn ábyrgð á þeim skuldbindingum. Hér er um að ræða Útvegsbanka Íslands sem Íslandsbanki yfirtók gegnum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og Landsbanka Íslands hf. sem yfirtók skuldbindingar Lánasjóðs landbúnaðarins árið 2005. Nær öll lánin eru hjá Landsbankanum eða 22,1 milljarður kr. Þar af er stærstur hluti vegna Lánasjóðs landbúnaðarins eða 13,8 milljarðar kr.

Fjármálaeftirlitið tók ákvörðun 9. október 2008 þar sem innstæður verði tryggðar fari þær yfir í nýju bankana og innlendar eignir á móti þeim. Það sem upp á vantaði kom úr ríkissjóði. Skuldabréf með ríkisábyrgð voru eftir í gamla bankanum. Í ríkisreikningi ársins 2008 og 2009 er þess getið að frágangi á þessum skuldbindingum í ríkisreikningi sé ekki lokið. Yfirfærsla þessara skuldbindinga nú yfir í efnahagsreikning er eðlileg samkvæmt góðum reikningsskilum.

Virðulegi forseti. Um leið og ég mæli fyrir því að skuldbindingarnar verði færðar yfir í efnahagsreikning legg ég ríka áherslu á að við drögum lærdóm af sögu þessa máls. Í fyrsta lagi eru sjóðir með ríkisábyrgð ekki í öruggu skjóli í einkabönkum og því hefur átt að aflétta ríkisábyrgðinni við yfirfærsluna. Í öðru lagi þarf að sýna sérstaka varfærni þegar ríkisábyrgðir eru veittar í framtíðinni. Þeim þurfa að fylgja skýr og afdráttarlaus skilyrði við hvaða aðstæður þeim skuli aflétt og með hvaða hætti.

Breytingar á 4. gr. frumvarpsins til fjáraukalaga eru þær að lagt er til að nýjar heimildir verði veittar til að leigja hentugt húsnæði fyrir umboðsmann skuldara. Einnig heimild til að leigja viðbótarhúsnæði til þarfa Landspítala vegna byggingar deilda spítalans. Spítalinn, félag um viðbyggingu Landspítala, og hönnunarteymi stefna á að leigja samliggjandi eða sameiginlegt húsnæði þannig að starfsmennirnir verði í nálægð hver við annan. Spítalinn mun leigja ákveðinn hlut af slíku húsnæði til að koma byggingardeild Spítalans fyrir og gera um hann sérstakan leigusamning. Byggingardeild Spítalans sér um öll húsnæðismál Spítalans. Talið er að samlegð geti verið í nálægð byggingardeildar við félagið og hönnunarteymið auk þess sem núverandi húsnæði sé orðið of lítið.

Einnig er lögð til breyting á 4. gr. frumvarpsins er varðar heimild til að efla eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um allt að 33 milljarða kr. þannig að hún geti orðið allt að 5% af áhættugrunni sjóðsins við árslok 2010 og að sjóðnum verði þar með gert kleift að mæta afskriftaþörf vegna útistandandi lánveitinga og áhrifum af ráðstöfunum sem kunna að verða gerðar vegna skuldavanda heimilanna.

Íbúðalánasjóður hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna falls bankanna og efnahagslægðarinnar sem fylgdi í kjölfarið. Umræður um styrkingu á lækkandi eiginfjárhlutfalli sjóðsins hafa verið á milli félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Íbúðalánasjóðs annars vegar og fjármálaráðuneytisins hins vegar. Þar er samkomulag um að miða framlag ríkisins við að eiginfjárhlutfall sjóðsins verði 5% til ársloka 2011 en eiginfjárhlutfall sjóðsins nam um 2,1% við hálfsársuppgjör ársins 2010. Vegna þessa þurfti ríkissjóður að leggja sjóðnum til 22 milljarða kr. fyrir árslok 2010. Upphæðin miðast við grunnspá viðskipta- og rekstraráætlunar Íbúðalánasjóðs fyrir árin 2010–2013. Síðan bætast við afskriftir vegna skuldavanda heimilanna sem felast í nýlegum tillögum ríkisstjórnarinnar og geta kallað á viðbótarframlag úr ríkissjóði sem næmi um 10 milljörðum kr. Rétt er að leggja áherslu á að áætluð afskriftaþörf ársins 2011 er eðli málsins samkvæmt óviss.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað um Íbúðalánasjóð og þau miklu áhrif sem breytingar á fjármögnun, lánsupphæðum og veðhlutföllum sjóðsins höfðu. Þar er einnig lagt til að tekið sé til skoðunar að annaðhvort Seðlabanki Íslands eða Fjármálaeftirlitið fái heimild til að setja reglur um leyfileg lánshlutföll til að koma í veg fyrir óhóflega skuldsetningu á þenslutímum. Nú hafa Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið takmarkaðar skyldur er varða eftirlit með Íbúðalánasjóði og úr því þarf að bæta svo að varðveitt sé félagsleg sérstaða sjóðsins og ríkisábyrgð sé metin á móti kröfu um eiginfjárhlutfall.

Til umfjöllunar er nú hjá hv. allsherjarnefnd þingsályktunartillaga frá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og fleirum þar sem lagt er til að Alþingi álykti að á vegum þess fari fram sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs og aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs sem hrint var í framkvæmd á árinu 2004. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs.

Virðulegi forseti. Ég tel mikilvægt að heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs fari fram í ljósi reynslu undanfarinna ára og að ekki verði litið fram hjá hagrænum áhrifum húsnæðislánamarkaðarins og þess stóra hlutverks sem Íbúðalánasjóður hefur í því tilliti. Því styð ég þingsályktunartillöguna og vona að hún fái greiðan framgang í þinginu á næstu dögum.

Þá er lagt til í breytingartillögunum við frumvarp til fjáraukalaga að heimild verði gefin til að semja við sveitarfélög um greiðslur og vaxtakjör vegna fjármagnstekjuskatts sem álagður er á árinu 2010 vegna tekna ársins 2009. Einnig er lagt til að Landbúnaðarháskóla Íslands verði veitt heimild til að stofna hlutafélag um búrekstur skólans og leggja til félagsins bústofn og lausafé. Að lokum er orðalagsbreyting þar sem orðið „selja“ hefur fallið brott og heimildin hljóðar þá svo: Að selja fasteignina að Borgarholtsbraut 51, Kópavogi, og láta andvirðið renna í Framkvæmdasjóð aldraðra.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.

Virðulegi forseti. Ég mæli einnig fyrir breytingartillögu við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2010. Fyrir liggur tillaga um að heimila fjármálaráðherra að efla eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um allt að 33 milljarða kr. með breytingu á 6. gr. fjárlaga. Í tengslum við þá heimild þarf að gera ráð fyrir samsvarandi hækkun á lántökuheimild í lánsfjárgrein 5. gr. fjárlaga. Því er flutt tillaga um að hækka lánsfjárheimild ríkissjóðs um 33 milljarða kr. með eftirfarandi breytingartillögu:

„Við 3. gr. Í stað orðanna „allt að 370.000 millj. kr.“ í 1. tölul. komi: allt að 403.000 millj. kr.“

Gert er ráð fyrir að viðeigandi liðir í sjóðstreymi í 2. gr. frumvarpsins breytist í samræmi við áhrif af framangreindri breytingu nái hún fram að ganga.

Virðulegi forseti. Ég mæli einnig fyrir breytingartillögu á þskj. 367. Breytingartillagan er um að hækka fjárheimild til Atvinnuleysistryggingasjóðs um 208 millj. kr. Fjárheimildin yrði notuð til að greiða desemberuppbót til atvinnuleitenda sem eru tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hafa verið án vinnu einhvern tíma á tímabilinu 22. nóvember til 3. desember 2010. Gert er ráð fyrir að greiðslurnar verði i hlutfalli við lengd þess tíma er hlutaðeigandi hefur verið án vinnu á árinu 2010. Þannig er gert ráð fyrir að sá sem fær fulla eingreiðslu hafi verið án atvinnu einhvern tíma á umræddu tímabili, hafi verið samtals 45 vikur án atvinnu á árinu og eigi rétt á óskertum grunnatvinnuleysisbótum. Hafi sá er telst vera að fullu tryggður innan kerfisins verið eingöngu hluta ársins án atvinnu á hann rétt á hlutfallslegri eingreiðslu í samræmi við lengd þess tíma sem hann er skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun. Hið sama gildir um þá sem tryggðir eru hlutfallslega á þeim tíma sem um ræðir. Óskert eingreiðsla verður 30% af grunnatvinnuleysisbótum eða 44.857 kr. og miðað við að eingreiðslan geti ekki orðið lægri en 11.214 kr. Kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna eingreiðslunnar er áætlaður 280 millj. kr.