139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[18:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina. Það er eitt sem mig langar að staldra við sem hún kom inn á og við þekkjum úr meðförum fjárlaganefndar. Það er gjaldfærsla á ríkisábyrgðunum upp á 24 milljarða. Við fengum á fund til okkar fólk frá Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitinu og ríkisfjármálastjóra til þess að fara yfir þetta.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég er ekki búinn að fá botn í þetta mál enn þá. Því er haldið fram að ekki megi skuldajafna á móti vegna þess að ríkisábyrgðin í ríkisreikningi er skilyrt við Lánasjóð landbúnaðarins. Það sem mig vantar að fá svör við og kalla þar með eftir afstöðu hv. þingmanns er hvort hún telji rétt að gera það með þessum hætti. Þá er í raun og veru viðurkennt að Nýi Landsbankinn hafi tekið eignasafnið úr gamla Landsbankanum, sem þá var eignahliðin hjá Lánasjóði landbúnaðarins, en skilið ríkisábyrgðina á bak við sem var í gamla Landsbankanum. Mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi um afstöðu hennar til meðferðarinnar á þessu máli og í öðru lagi hvort það komi til greina að fresta atkvæðagreiðslu um fjáraukalögin, 3. umr., af því að þetta er síðasta umræðan, þar til búið er að fá endanlegan botn í þetta. Eins og ég skil þetta núna virðist það vera að mistökin hafi átt sér stað við stofnun nýju bankanna, þ.e. að ríkisábyrgðin á bak við Lánasjóð landbúnaðarins átti að mínu viti að skuldajafnast á við eignir Lánasjóðs landbúnaðarins. Þannig að mistökin gætu hugsanlega verið við stofnun nýju bankanna að hafa ekki skuldajafnað þetta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi hver er afstaða hennar til þess að afgreiða þetta á þennan veg núna og hins vegar hvort það komi til greina að fresta afgreiðslunni, a.m.k. atkvæðagreiðslunni um málið, þar til að kominn væri endanlegur botn í þetta.