139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[18:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég ætti að lista upp svarið hjá hv. þingmanni þá er hv. þingmaður ekkert nær því en ég að skilja hvar hundurinn liggur grafinn, ef ég má nota það orð. Annaðhvort gerist þetta við einkavæðingu bankanna, við setningu neyðarlaganna eða í þriðja lagi við stofnun nýju bankanna. Það kom fram hjá forsvarsmönnum Íbúðalánasjóðs að þegar þeir börðust við gömlu bankana og nýju, þar sem eignirnar voru færðar yfir, hafi feillinn verið sá að hafa ekki notað þetta ákvæði til þess að skuldajafna á milli nýju og gömlu bankanna, vegna þess að ef nýi bankinn yfirtekur eignir Lánasjóðs landbúnaðarins en skilur skuldirnar eftir með ríkisábyrgðinni, þá blasir þetta við, þá má eiginlega líta á þetta sem aukaframlag ríkissjóðs inn í nýja bankann.

Eins og þetta horfir við mér er þetta þannig að þegar nýju bankarnir voru stofnaðir er gerður sá feill að færa ekki ríkisábyrgðina á lánum sem eru á móti eignum til þess að núlla þetta út. Mér finnst að við þurfum að fá botn í þetta til þess að skilja það og kalla á fund fjárlaganefndar óháða (Forseti hringir.) aðila sem geti farið yfir þetta og hefðu á því ákveðna sérþekkingu.