139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[18:43]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er augljóst af þeim orðaskiptum sem fóru á milli formanns fjárlaganefndar og fulltrúa í fjárlaganefnd að gríðarlegur ágreiningur er um stóra þætti í framsetningu málsins. Sú óvissa sem er í þessu fjáraukalagafrumvarpi og raunar í fjárlagafrumvarpinu sjálfu hleypur ekki á nokkrum milljörðum kr. heldur á tugum milljarða kr. Það er í raun og veru alveg ófært að gera sér grein fyrir því hver afkoma ríkissjóðs er. Þetta hefur ekki breyst þrátt fyrir að menn hafi haldið langar ræður um að breyta skuli vinnubrögðum á þinginu. Ég held að menn hafi aldrei séð aðra eins hreyfingu á tölum og við höfum horft upp á núna.

Mig langar að spyrja hv. þm. Oddnýju Harðardóttur tveggja spurninga:

Í fyrsta lagi kemur fram breytingartillaga á þskj. 412 um Íbúðalánasjóð þar sem 33 milljarðar kr. eru settir þar inn. Í ræðu hv. þingmanns kom fram að 22 milljarðar kr. væru vegna eiginfjárhlutfalls sjóðsins. Sú upphæð hefur verið nokkuð mikið á reiki. Maður hefur heyrt tölu alveg frá 18 upp í 25 milljarða kr. hvað þetta snertir og að restin, eða um 10 milljarðar kr., sé vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Sú tala er nú töluvert lægri en menn spáðu fyrir um fyrir nokkrum dögum þegar talað var um að það þyrfti að setja fé í Íbúðalánasjóð vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar við skuldavanda heimilanna sem gæti jafnvel nálgast 15 milljarða kr. Mig langar að spyrja hv. þm. Oddnýju Harðardóttur hver staðan sé raunverulega, hvað hún telji að þurfi að laga stöðu Íbúðalánasjóðs mikið, hvort þetta sé nóg eða hvort gera þurfi eitthvað meira.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hv. þingmann, vegna orða hæstv. forsætisráðherra í morgun um vaxtabótaþáttinn þar sem hún sagði að leitast yrði við að fá fjármálastofnanir til að greiða þann kostnað sem þar væri, hvort ekki sé nauðsynlegt fyrir okkur að vita hvað sá kostnaður verði mikill komi til þess að slíkt samkomulag náist ekki. Ég vek athygli á því að talað hefur verið um 12 milljarða kr. á tveimur árum. Ég heyrði ekki betur af orðum hæstv. forsætisráðherra í morgun en að um töluvert hærri fjárhæð væri að ræða. (Forseti hringir.)