139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka fram vegna orða hv. þingmanns að engar greiðslur verða úr ríkissjóði í tengslum við færsluna á tæpum 25 milljörðum frá rekstrarreikningi yfir í efnahagsreikning. Þetta er eingöngu gjaldfærsla í ríkisreikningi.

Varðandi Íbúðalánasjóð var á sameiginlegum fundi hv. fjárlaganefndar og félags- og tryggingamálanefndar farið allvel yfir þau mál og m.a. rætt við Seðlabanka og Fjármálaeftirlitið um útreikningana á því hvað þyrfti til að eiginfjárhlutfallið næði 5% á árinu 2011 og menn töldu að miðað við gefnar forsendur væru 22 milljarðar rétt tala. Þá er miðað við grunnforsendur. Ef hlutirnir breytast og efnahagslægðin verður dýpri á árinu 2011 verður fjárþörfin auðvitað meiri.

Sama er með skuldapakkann, það er auðvitað ekki búið að reikna hann nákvæmlega út, menn töluðu um 15 milljarða. Einhver hluti af honum verður afskrifaður sem hvort eð er hefði orðið. Reiknað er með þessum 22 milljörðum þannig að þó að ég segi að miðað við þær forsendur séu 33 milljarðar nóg sem fjárheimild á árinu 2010 gæti hún orðið önnur og meiri á árinu 2011, ég þori ekki að fullyrða um það.