139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Mig langar að blanda mér í umræðuna á þeim forsendum sem lúta að ríkisábyrgðinni. Í ljósi síðustu orða hv. formanns fjárlaganefndar mætti ætla að við værum þar með búin að gangast í ábyrgð upp á 6 milljarða kr. næstu árin út af vaxtabótadæminu.

Stóra málið í þessu samhengi er hins vegar það að alveg er ljóst að þessi tvö mál, sérstaklega ábyrgðin sem er gjaldfærð, annars vegar ríkisábyrgðin á bönkunum og hins vegar á Íbúðalánasjóði, eru óskyld. Mig langar að varpa þeirri spurningu til hv. formanns hvort hún sé sátt við með hvaða hætti fjárlaganefnd tekur þessar gríðarlegu færslur inn, nýja reikninga ríkisins eins og lagt er til, og hvort þetta séu þau vinnubrögð sem hún telji eðlilegt að ástunduð séu þegar við þurfum að gaumgæfa hverja einustu krónu sem lagt er út fyrir.

Ég vil taka fram varðandi ríkisábyrgðina á stofnlánadeildinni og föllnu bönkunum að málið er þannig vaxið og óumdeilt í mínum huga að það á ekkert skylt við einkavæðingu bankanna. Stofnlánadeildin eða Lánasjóður landbúnaðarins var seldur tveim eða þrem árum eftir einkavæðinguna. Vissulega má segja að þá hafi verið gerð mistök með því að aflétta ekki ríkisábyrgðinni. Ég kann ekki þá sögu. Það má með sama hætti segja að gerð hafi verið mistök við uppgjör þegar gengið var frá skilum á milli gömlu og nýju bankanna. Ég kann heldur ekki þá sögu. Ég tel tvímælalaust og spyr hv. formann fjárlaganefndar að því hvort ekki séu efni til þess að þingið gangi úr skugga um hvernig allri sögu þessa máls sé háttað, ekki síst í ljósi þess ef maður skoðar ríkisreikningana allt aftur til ársins 2004 að minnst er á þessa ábyrgð í þeim.