139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að fara yfir sögu þessa máls og læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið á hvaða stigum sem þau voru. Kannski voru gerð mistök á öllum stigum. Við stöndum alla vega frammi fyrir því að ríkisábyrgðirnar fóru alla leið og eru nú í gamla bankanum. Þær eru skuldbindingar okkar og þó að áfram sé gerð krafa af hálfu ríkisins um að fá féð til baka eru ekki taldar miklar líkur á að svo verði.

Hv. þingmaður spurði um hvort sú sem hér stendur væri sátt við þetta vinnulag, hversu hratt beiðnirnar komu inn og hversu lítinn tíma hv. fjárlaganefnd fékk til að fjalla um málið. Ég svara því til: Nei, mér finnast þetta ekki vinnubrögð sem eru til fyrirmyndar en, eins og hv. þingmaður sagði, var okkur kunnugt um þessar skuldbindingar og okkur var kunnugt um að koma þyrfti til móts við Íbúðalánasjóð þannig að hvorugt kom okkur algjörlega á óvart, en það eru samt ekki vinnubrögð sem ég get mælt með að gefa okkur svo lítinn tíma þó að ég treysti mér núna, eftir að hafa aflað mér upplýsinga um málið, til þess að greiða atkvæði með báðum þeim málum sem hv. þingmaður talaði um.