139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Spurt er hvort ríkisábyrgðum hefði átt að aflétta, eins og ég skil spurninguna, við einkavæðingu bankanna og ég held að það hefði verið rétt vinnulag. Þá hefðu þær skuldir þurft að verða eftir hjá ríkissjóði. Ég held að ekki hefði verið hægt að selja kröfurnar án þess að láta ríkisábyrgðirnar fylgja með. Ég er þeirrar skoðunar að fyrst það var selt þurfti allur pakkinn að fylgja með eins og ég nefndi í ræðu minni áðan. Ég tók sem dæmi að það gerði það að verkum að meira fékkst fyrir lánasjóðinn. Stór hluti af því var nýttur í samfélagið. Ég vil ekki blanda einkavæðingu Lánasjóðs landbúnaðarins saman við einkavæðingu bankanna. Sú einkavæðing fór fram um þremur árum seinna. Hvort hægt verði að aflétta þeim skal ég ekki segja um en ég tel að kröfurnar hefðu ekki átt að fylgja með.

Varðandi reikningsskilareglurnar og spurninguna þá er ég sammála því að færa eigi inn í efnahagsreikninginn samkvæmt reikningsskilareglum. Ég fagna því að það sé gert. Gagnrýni mín beindist að því að mér hefur þótt eiginfjárhlutfall bankanna ofmetið á margan hátt og alltaf talið að það væri borð fyrir báru að aflétta skuldum á skuldugum heimilum. Þess vegna hef ég metið það þannig að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu ekki gjöf til (Forseti hringir.) almennings heldur eðlileg aðgerð.