139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[20:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjáraukalögin við 3. og síðustu umræðu. Ég vil byrja á því að gera athugasemdir við það hvernig vinnubrögðin í heild sinni eru við fjárlög og fjáraukalög í umræðunni á Alþingi.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir fjáraukalögunum tóku einungis tveir hv. þingmenn þátt í umræðunni. Það var sá sem hér stendur og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Við 2. umr. fjárlaga skánaði listinn því þá tóku fimm hv. þingmenn þátt í umræðunni: hv. þingmenn Oddný Harðardóttir, Björn Valur Gíslason, Kristján Þór Júlíusson og Þór Saari, ásamt mér. Það voru fimm hv. þingmenn sem tóku þátt í 2. umr. fjáraukalaga. (Utanrrh.: Þetta er einvalalið.) Þetta er einvalalið, það er rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra. En þar sem við ræðum fjáraukalögin erum við ekki að tala um neinar smástærðir. Við erum að tala um tugi milljarða og ekki er hægt að segja að það sé þétt setinn bekkurinn í þingsal. Það eru einungis örfáir hv. þingmenn í þingsal. Þannig hefur það verið í gegnum alla umræðuna. Ég er hugsi yfir því, virðulegi forseti, hver er í raun og veru virðing okkar hv. þingmanna, alla vega þeirra sem mæta ekki í umræðuna og eru ekki hérna nú þegar stærsta verkefnið er fram undan, gagnvart því að ná tökum á ríkisfjármálunum. Það deilir enginn um það. Svo lifa margir hv. þingmenn í þeirri sjálfsblekkingu að halda að þetta séu erfiðustu fjárlög sem lögð hafa verið fram. Ég leyfi mér að efast stórlega um það. Ef fram fer sem horfir verða fjárlögin fyrir næsta ár mun erfiðari, þ.e. fyrir árið 2012. Þá skerum við ofan af því sem við erum búnir að skera. Mér finnst margir hv. þingmenn lifa í sjálfsblekkingu með að þetta sé hæsti þröskuldurinn og nú liggi leiðin niður á við. Því miður er það ekki sjálfgefið.

Annað, virðulegi forseti. Virðing framkvæmdarvaldsins fyrir þinginu og fyrir hv. fjárlaganefnd er algerlega fyrir neðan allar hellur. Það er komið hlaupandi inn með breytingartillögur á síðustu metrum og síðustu mínútum umræðnanna. Það er algerlega óþolandi og ólíðandi vegna þess að þá hefur þingið ekki nægilega yfirsýn yfir það sem fjallað er um. Það eru svo mýmörg dæmi um það að við hljótum að þurfa að læra af reynslunni í gegnum árin og áratugina. Þessu verður að breyta.

Ég vil hins vegar taka fram að umræða hefur farið fram í hv. fjárlaganefnd sem er samstiga. Það er gott samstarf innan nefndarinnar svo að því sé haldið til haga. En nú þurfum við að setja stólinn fyrir dyrnar. Ég vona það svo sannarlega, virðulegi forseti, að við stöndum undir þeim væntingum þingsins að þetta sé í síðasta sinn sem þetta er gert. Annars er ekkert annað að gera en skipta hv. fjárlaganefnd út og láta þá einhverja aðra hv. þingmenn leysa verkefnin sem nauðsynlegt er að leysa. Þetta gengur ekki svona lengur. Lausatökin og vinnubrögðin við fjárlagagerðina eru algerlega úti á túni. Hér gera margir hverjir sér ekki grein fyrir því um hvað er rætt. Þessu verður að breyta og það verður að breyta vinnureglunum að mínu viti. Ef búið er að ákveða dagsetningu eins og gert var í skipulagi þingsins, að fjáraukalagaumræðan eigi hugsanlega að fara fram, hún átti að fara fram fyrir nokkrum dögum, á ákveðnum degi þá þarf að lágmarki að setja tveggja sólarhringa fyrirvara á að framkvæmdarvaldið geti komið með breytingartillögur inn til hv. fjárlaganefndar. Öðruvísi hefur hv. fjárlaganefnd ekki nægilega yfirsýn yfir það sem er að gerast. Þó að vilji sé fyrir hendi vantar oft og tíðum það mikið af upplýsingum að menn hafa ekki yfirsýn yfir það sem er að gerast. Þessu verður að breyta. Setja þarf reglur. Það er alveg sama ef framkvæmdarvaldið kæmi með eitthvað þá þarf umræða og afgreiðsla nefndarinnar að færast aftur um tvo daga. Öðruvísi náum við aldrei tökum á því að stýra fjármálum ríkisins. Það er ekki flóknara en það.

Hvað gerðist milli 2. og 3. umr. þegar við fjölluðum um fjáraukalögin? Hvað gerðist þá? Það var haldinn fundur í hv. fjárlaganefnd kl. 19.30 og stendur fundurinn í tæpan klukkutíma. Á þessum tíma koma breytingar inn sem nema 55 milljörðum, um 1 milljarður á mínútu. Trúir því einhver að menn hafi nægilega yfirsýn yfir það sem er að gerast? Ég fullyrði að svo er ekki, a.m.k. ekki um alla.

Hvað gerist síðan? Það átti að vera 3. umr. um fjáraukalögin daginn eftir. Ef ég hef skilið það rétt, og ég verð þá leiðréttur ef ég fer með rangt mál, þá sér hv. þm. Samfylkingarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, á fréttamiðli að það standi til að setja 33 milljarða inn í Íbúðalánasjóð rétt sisvona. Þess vegna er umræðunni frestað og við erum að ræða málið í dag. Við ættum að vera löngu búin að afgreiða fjáraukalögin. Þetta er alveg hreint með ólíkindum og staðfestir að þessu verður að breyta og við þurfum að standa saman um það hvernig við gerum þetta.

Mig langar að fara yfir tvær stærstu breytingarnar sem snúa að breytingunni milli 1. og 3. umr. Í fyrsta lagi ríkisábyrgðirnar, í öðru lagi Íbúðalánasjóð. Ég ætla að byrja á ríkisábyrgðunum. Virðulegi forseti, eftir að þetta mál kom upp gerist það að fulltrúi frá fjármálaráðuneytinu kemur og segir okkur á kvöldfundinum að 24 milljarðar færist til gjalda hjá ríkissjóði út af ríkisábyrgðunum sem eru að stærstum hlut út af Lánasjóði landbúnaðarins. Gott og vel. Hver er skýringin á því? Eigum við að skoða það aðeins?

Það eru hugsanlega nokkrar skýringar á því af hverju þetta er gert. Í fyrsta lagi hvort gerð voru mistök við einkavæðinguna, ekki einkavæðingu bankanna, vegna þess að einkavæðing bankanna fer fram 2003 og Lánasjóður landbúnaðarins er seldur 2005. Það kemur í raun og veru ekkert einkavæðingu bankanna við sem margir virðast halda að sé feillinn sem er gerður í þessu máli. Var það gert þegar Fjármálaeftirlitið setti neyðarlögin? Ég veit það ekki. Eða var það sem ég tel að það sé. (Utanrrh.: Alþingi setti neyðarlögin.) Bíddu rólegur, já, ég veit allt um það. Alþingi setti neyðarlögin en Fjármálaeftirlitið útbjó með hvaða hætti þau voru gerð. Auðvitað ber Alþingi ábyrgð á því. Ég stend í þeirri trú en ég ætla ekki að fullyrða að svo sé. Ég held að feillinn hafi verið gerður þegar einkavæðing bankanna fór fram í fyrra árið 2009 vegna þess að mér er það algerlega óskiljanlegt þegar nýju bankarnir voru stofnaðir voru ríkisábyrgðir inni á Lánasjóði landbúnaðarins að stærstum hluta.

Það sem gerist við einkavæðinguna er að eignir Lánasjóðs landbúnaðarins eru teknar, þar að segja lánin sem Lánasjóður landbúnaðarins hafði lánað viðkomandi aðilum, og færðar inn í einkabanka. En ríkisábyrgðin sem er á lánunum á bak við eignirnar sem lánasjóðurinn lánar til baka er skilin eftir í gamla bankanum. Hvernig stendur á þessu? Síðan koma á fund hv. fjárlaganefndar fulltrúar frá Ríkisendurskoðun, frá fjármálaráðuneytinu og Fjársýslu ríkisins sem hv. þm. Oddný Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar, beitti sér fyrir að fá til að skýra þetta út. Ég skildi þetta hins vegar ekki alveg enda staðfesti hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, Oddný G. Harðardóttir, áðan að hún gerði sér ekki alveg grein fyrir því hvar mistökin áttu sér stað. En hvernig getur það verið? Ég skil að a.m.k. ekki að hægt sé að vera með ríkisábyrgð inni í Landsbankanum, sem sé ríkisábyrgð á einhverjum 20–30 milljörðum en ekki skuldbundið Lánasjóði landbúnaðarins af því að það kemur fram í ríkisreikningi að það sé ríkisábyrgð á Lánasjóði landbúnaðarins. Hún er að sjálfsögðu skilyrt honum, það gefur augaleið. En sumir vilja túlka það þannig að þetta sé ríkisábyrgð á tugum milljarða. Skýringarnar sem ég taldi að kæmu fram á fundinum voru að ekki mætti mismuna kröfuhöfunum. Þegar menn skildu eftir lánasjóðinn í gamla Landsbankanum og gáfu út skuldabréf um mismun á eignum og skuldum sem nýi bankinn tók yfir úr gamla bankanum, þá hafi ekki mátt taka og jafna út ríkisábyrgðina á móti þessu lánasafni sem fór inn í Nýja Landsbankann. Mér er gersamlega ómögulegt að skilja þessi rök. Ég hef talið að skuldajafna mætti inni í gamla bankanum á móti eignunum sem lánasjóðurinn átti og á lánunum sem ríkisábyrgðin var á. Annað kemst ekki inn í minn heimska haus. Ég ætla ekki að fullyrða það en ég tel að mistökin hafi verið gerð við einkavæðingu nýju bankanna. Mönnum hafi yfirsést að taka ríkisábyrgðina á móti eignum Lánasjóðs landbúnaðarins. Það tel ég vera skýringuna.

En það er hins vegar ekki aðalatriði málsins. Hv. formaður fjárlaganefndar hefur bent á að það sé skynsamlegt að millifæra þetta með þessum hætti, það séu eðlileg reikningsskil. Ég teldi hins vegar að væri til nýbreytni fyrir þingið að menn frestuðu því eftir 3. umr. að greiða atkvæði um breytingartillögurnar og fjáraukann í heild sinni þar til kominn væri botn í þetta mál. Mér fyndist skynsamlegt að gera það.

Við skulum heldur ekki gleyma því að þegar Lánasjóður landbúnaðarins var seldur á sínum tíma og einkavæddur þá var haldið opið útboð. Landsbankinn keypti hann og greiddi tæpa 3 milljarða til ríkissjóðs. Mér finnst, virðulegi forseti — ekki er hægt að saka mig um að mæta ekki á fundi fjárlaganefndar, ég mæti á alla, á réttum tíma og sit þá til enda — að útskýringin á þessum gjörningi liggi ekki nógu klár fyrir, alla vega ekki í mínum huga. Það kom líka fram í máli hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur að hún var í raun og veru ekki búin að festa hendi á þetta heldur. Ég tel mikilvægt að þingið sýndi það einu sinni og stæði í lappirnar að láta ekki bjóða sér upp á slík vinnubrögð fyrr en botn væri kominn í málið. Það er mjög dapurlegt að heyra. Ég sá viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra þegar hann kom og útskýrði þetta. Þetta var bara enn eitt klúðrið við einkavæðinguna en það er ekki búið að sannfæra mig um það. Hann hefur kannski átt við sína eigin einkavæðingu, það hefur kannski legið í orðunum. Hann hefur kannski ekki útskýrt það nógu vel. Það er kannski það sem vantar, sína eigin, inn í setninguna til að menn geti fengið botn í þetta.

Hitt málið sem ég ætla að ræða örstutt af því að tími minn líður hratt, er Íbúðalánasjóður. Það kemur beiðni um að setja 33 milljarða inn í Íbúðalánasjóðinn í fjáraukalögin. Þá kemur fram frá fulltrúum fjármálaráðuneytisins að það þurfi 18 milljarða til að rétta af eiginfjárhlutfallið. Síðan þegar fulltrúar Íbúðalánasjóðs koma á fund fjárlaganefndar þá tala þeir um að það séu 22 milljarðar til að rétta af taphlutfallið á árinu 2010. Þarna er ekki nema 4 milljarða mismunur. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvar er yfirsýnin í málinu? Það eru allir búnir að vita það í margar vikur og marga mánuði að Íbúðalánasjóður þarf að fá framlag til að ná upp eiginfjárhlutfallinu. Hvar er aðkoma félagsmálaráðuneytisins að þessu máli? Vita menn ekki hvort það þurfi 18 eða 22 milljarða? Kannski þetta litla dæmi segi okkur allt um það verkefni sem fram undan er? Ef við ætlum að ná tökum á fjármálum ríkisins og ná jöfnuði í ríkisfjármálum þá verðum við að byrja á því að breyta vinnubrögðunum þannig að við höfum þá einhverja yfirsýn yfir það sem við erum að gera. Núna mun reyna á hv. fjárlaganefnd að setja framkvæmdarvaldinu stólinn fyrir dyrnar og setja þær reglur sem þingið vill og hv. fjárlaganefnd vill en ekki hvað framkvæmdarvaldið býður upp á. Sá tími verður að breytast núna á þessum erfiðu og vandasömu tímum sem fram undan eru því öðruvísi, virðulegi forseti, munum við ekki ná tökum á ríkisfjármálunum og þá mun okkur (Forseti hringir.) ganga illa í framtíðinni ef við gerum það ekki.