139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra segir að ég geti ekki svarað þessu. Ég ætla a.m.k. að gera tilraun, það er ekki hægt að segja það um alla. Hv. þm. Oddný Harðardóttir spyr hvort það hafi komið mér algjörlega í opna skjöldu að setja þyrfti aukið fé inn í Íbúðalánasjóð. Ég get ekki sagt að svo sé, að það hafi komið mér algjörlega í opna skjöldu. Ég gerði mér hins vegar enga grein fyrir því hvort það yrði í fjáraukalögum eða fjárlögum árið 2011. Það sem er verið að gera þarna, tel ég, eins og hv. þingmaður veit jafn vel og ég, er að menn setja þarna inn ákveðið eiginfjárhlutfall með því að fá heimildargrein en við tökum heldur engan vaxtakostnað eða neitt inn í vaxtagjöld hjá ríkinu, reiknum ekki með þeim í þessum tillögum. Ég held að það sem muni gerast sé það að ríkið greiði annaðhvort á næstsíðasta eða síðasta degi ársins inn í Íbúðalánasjóð til að eiginfjárhlutfallið verði í lagi í ársreikningi sjóðsins fyrir árið 2010. Það verði gert með þeim hætti.

Það sem ég var að benda á er að þetta skuli koma inn á síðustu metrunum við 3. umr. Þetta kemur kvöldið áður en 3. umr. um fjáraukalagafrumvarpið átti að fara fram. Yfirsýnin finnst mér ekki vera nægjanleg þegar fjármálaráðuneytið kemur og segir: Við þurfum að setja 18 milljarða kr. inn til að laga eiginfjárhlutfallið, og síðan koma Íbúðalánasjóður og forsvarsmenn hans á fund í fjárlaganefnd og segja: Við þurfum 22 milljarða. Þess vegna spyr ég: Hvar er yfirsýnin í félags- og tryggingamálaráðuneytinu sem ætti náttúrlega að vita þetta verandi með þetta í fanginu alla daga og á að vera vel kunnugt um hvernig þetta er gert? Það er þetta sem ég var að segja, að menn taka ákvarðanir um eina 33 milljarða kr. bara á nokkrum klukkutímum. Hugsið ykkur, þetta er sex klukkutímum eftir að 2. umr. lýkur. Svo ætluðum við að klára 3. umr. daginn eftir og þá koma menn inn með þetta. Hvers vegna, þegar þetta lá fyrir, var ekki löngu búið að koma með tillögu um að auka eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs um þessa 22 milljarða? (Forseti hringir.) Ég geri mér þó grein fyrir að það var ekki hægt að koma með tillögur um hvað þyrfti að setja inn í hann vegna skuldavanda heimilanna sem ríkisstjórnin er bara að kynna þessa dagana. (Forseti hringir.)