139. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að þessi breytingartillaga hefði mátt koma fyrr til umfjöllunar en ég tel hins vegar nauðsynlegt að samþykkja þessa heimild miðað við stöðuna sem upp er komin. En ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því varðandi Íbúðalánasjóð að það þurfi að skoða hann til framtíðar þó að brugðist sé við með þessum hætti núna, hvort það sé ekki allt opið að rannsaka og læra af sögunni og gera stefnubreytingar til framtíðar fyrir sjóðinn, jafnvel þó að við samþykkjum þessa 6. gr. heimild núna við 3. umr. fjáraukalagafrumvarpsins. Auk þess vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji nokkuð útilokað þó að við samþykkjum í samræmi við góðar reikningsskilareglur að færa ríkisskuldbindingar yfir í efnahagsreikninginn að við getum að því loknu rannsakað söguna og lært af henni hvernig farið var með ríkisábyrgðirnar, bæði við einkavæðingu bankanna, við atburðina sem gerðust 2005 og eins núna þegar eignir og skuldir voru færðar á milli gömlu og nýju bankanna.

Aðalatriðið í þessu finnst mér vera að við samþykkjum það sem lagt er til með breytingartillögum við fjáraukalagafrumvarpið núna en við látum ekki þar við sitja, heldur rannsökum málið áfram og lærum af reynslunni og sögunni.